Líkindi milli íþróttanna tveggja

Louis Rees-Zammit í leik með landsliði Wales í rúgbí.
Louis Rees-Zammit í leik með landsliði Wales í rúgbí. AFP/Christophe Simon

Andy Reid, þjálfari NFL-meistara Kansas City Chiefs í ruðningi, hefur trú á því að Walesverjanum Louis Rees-Zammit muni takast að standa sig vel með liðinu eftir að hafa skipt um íþrótt.

Rees-Zammit hafði verið í fremstu röð í rúgbí en ákvað í lok síðasta árs að reyna fyrir sér í ruðningi. Gekk honum svo vel á æfingum að Chiefs ákvað að semja við hann.

„Hann kynntist ruðningi þegar hann var ungur. Pabbi hans spilaði í sex ár í Evrópudeildinni í ruðningi þannig að hann þekkti svolítið fyrir til íþróttarinnar.

Honum hefur gengið mjög vel í rúgbí og það eru líkindi milli íþróttanna tveggja. Þetta er leikur með snertingum,“ sagði Reid í samtali við bandaríska miðilinn SB Nation.

Virðist hafa þetta í sér

Þjálfarinn reyndi sagði að það myndi vissulega taka tíma fyrir Rees-Zammit að venjast og læra hinar ýmsu reglur sem eru ekki til í rúgbí og læra inn á leikskipulag í ruðningi en að Walesverjinn búi yfir góðum kostum sem ættu að geta hjálpað honum að gera það.

„Það er ekki auðvelt að gera þessa breytingu en hann virðist hafa þetta í sér eftir að hafa spilað rúgbí sem atvinnumaður síðan hann var 17 ára gamall.

Hann er hérna hjá okkur 23 ára gamall og hefur átt ansi góðan feril í þeirri íþrótt. Hann skilur hvernig á að vera atvinnumaður og hvernig hugarfar þarf til þess að spila á hæsta stigi,“ sagði Reid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert