Guðmundur á samtals níu undir pari

Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Guðmundur Ágúst Kristjánsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR lék vel á Opna portúgalska mótinu í golfi sem lauk í dag. Guðmundur Ágúst lék samtals á níu höggum undir pari og fór undir 70 höggin á þremur hringjum af fjórum.

Guðmundur Ágúst hafnaði í 17.-23. sæti í mótinu og má gera ráð fyrir að hann fái í kringum fimm þúsund evrur í verðlaunafé. Guðmundur lék þrjá hringi á 69 höggum og einn á 72. 

Haraldur Franklín Magnús, einnig úr GR, tók þátt í mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurð keppenda eftir 36 holur. Garrick Higgo frá Suður-Afríku sigraði á 18 höggum undir pari. 

Guðmundur og Haraldur eru með keppnisrétt á Áskorendamótaröð Evrópu en Opna portúgalska mótið er á Evrópumótaröðinni. Þar sem margir af bestu kylfingunum á Evrópumótaröðinni tóku þátt í Opna bandaríska meistaramótinu þessa vikuna gafst kylfingum tækifæri til að komast inn í mótið í Portúgal.

Þar sem mótið er hluti af Evrópumótaröðinni er þessi árangur einn sá besti hjá Guðmundi á ferlinum. Birgir Leifur Hafþórsson er eini íslenski kylfingurinn sem hefur fengið fullan keppnisrétt á Evrópumótaröð karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert