Alltaf gaman þegar það er „fætingur“

Hergeir Grímsson og Selfoss mæta ÍR í átta liða úrslitum.
Hergeir Grímsson og Selfoss mæta ÍR í átta liða úrslitum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hergeir Grímsson, hornamaður úr Selfossi, býst við erfiðu einvígi gegn ÍR í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta, sem hefst í dag. Selfoss hafnaði í öðru sæti deildarinnar með 34 stig og ÍR í sjöunda sæti með 19 stig. 

„Við erum ekki mikið að spá í því hvernig staðan er töflunni er. Það skiptir engu máli að við lentum í öðru sæti og þeir í sjöunda sæti. Við spiluðum tvisvar við þá í vetur og það voru hörkuleikir. Þeir eru með öflugt lið en við förum inn í þetta með því markmiði að vinna og við höfum trú á okkur," sagði Hergeir í samtali við mbl.is. 

ÍR féll úr leik í átta liða úrslitum í fyrra, eftir einvígi við ÍBV, þar sem spilað var gríðarlega hart og jafnvel gróft. Hergeir á ekki endilega von á svoleiðis einvígi í ár. „Ekki endilega en það er alltaf gaman þegar það er fætingur. Maður vonar að það verði smá action í þessu."

„ÍR-ingarnir eru með frábæran markmann sem reynist mörgum erfiður. Þeir eru með gott varnarlið og þegar þeir smella er erfitt að skora á móti þeim. Þeir eru svo með mjög góða menn í sókninni líka, tvo góða hornamenn og menn sem geta skotið fyrir utan," sagði hornamaðurinn. 

Allir eru klárir í bátanna á Selfossi, nema Einar Sverrisson, sem er frá vegna meiðsla. Einar lék afar vel í úrslitakeppninni í fyrra og er því mikill missir fyrir Selfoss. 

„Einar Sverrisson spilar ekki með okkur og það er slæmt fyrir liðið og auðvitað hann. Hann var rosalega góður í úrslitakeppninni í fyrra og skoraði um það bil ellefu mörk í meðaltali í leik. Úrslitakeppnin er hans tími, en það kemur maður í manns stað og við verðum að halda áfram að spila okkar leik þrátt fyrir að það vanti hann," sagði Hergeir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert