Hildigunnur áfram í Þýskalandi

Hildigunnur Einarsdóttir hjá Dortmund.
Hildigunnur Einarsdóttir hjá Dortmund.

Hildigunnur Einarsdóttir, landsliðskona í handknattleik, verður áfram í atvinnumennsku erlendis en mun ekki flytja heim í sumar eins og allt virtist stefna í.

Hildigunnur hefur verið erlendis í sjö ár og lék með Borussia Dortmund í efstu deild Þýskalands í vetur. Í samtali við Morgunblaðið í apríl sagði hún ljóst að hún yrði ekki áfram í herbúðum félagsins og að hugurinn stefndi heim, en nú hefur taflið snúist við og hún verður áfram í Þýskalandi.

Hildigunnur hefur nú samið við Bayer Leverkusen til tveggja ára, en þetta staðfesti hún í Fréttablaðinu í dag. Leverkusen er sigursælasta félagsliðið í Þýskalandi og hefur unnið meistaratitilinn átta sinnum, síðast 1987. Liðið hafnaði í 5. sæti deildarinnar í vetur, tveimur sætum fyrir ofan Dortmund.

„Það voru nokkur lið á Íslandi sem höfðu samband og hófu viðræður en ég setti það allt saman til hliðar þegar Leverkusen hafði samband,“ segir Hildigunnur í Fréttablaðinu, en hér heima spilaði hún með Val áður en hún fór til Ternes í Noregi fyrir sjö árum.

Leverkusen verður þriðja þýska félagið sem Hildigunnur leikur með, en hún hafði áður spilað með Leipzig og Dortmund. Þá spilaði hún með austurríska meistaraliðinu Hypo og lék einnig í Svíþjóð í skamman tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert