Belgar fóru illa með Egypta

Belgar mæta fullir sjálfstrausts til Rússlands í næstu viku.
Belgar mæta fullir sjálfstrausts til Rússlands í næstu viku. AFP

Belgía og Egyptaland mættust í vináttuleik á King Baudouin-vellinum í Brussel í kvöld en leiknum lauk með 3:0 sigri Belga. Romelu Lukaku kom Belgum yfir á 27. mínútu og Eden Hazard tvöfaldaði forystu Belga undir lok fyrri hálfleiks.

Marouane Fellini gerði svo út um leikinn með marki í uppbótartíma og niðurstaðan 3:0 sigur Belga sem hafa verið á miklu skriði að undanförnu. Þeir gerðu markalaust jafntefli við Portúgal í vináttuleik um síðustu helgi en liðið mætir Kosta Ríka, 11. júní næstkomandi í lokaleik sínum fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi en Belgar eru með Englandi, Túnis og Panama í G-riðli.

Egyptum hefur hins vegar ekki gengið vel í undanförnum leikjum en liðið gerði jafntefli við Kúveit í lok maí áður en þeir gerðu markalaust jafntefli við Kólumbíu á föstudaginn síðasta. Næsti leikur þeirra verður gegn Úrugvæ á HM í Rússlandi 15. júní en þeir leika í A-riðli heimsmeistaramótsins með Úrugvæ, Sádi-Arabíu og Rússum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert