Sagður hafa kynferðislega áreitt kokk

Jorge Sampaoli er kominn með sína leikmenn til Bronnitsy, nærri …
Jorge Sampaoli er kominn með sína leikmenn til Bronnitsy, nærri Moskvu þar sem leikur Argentínu og Íslands fer fram næsta laugardag. AFP

Nú þegar aðeins nokkrir dagar eru þar til að Jorge Sampaoli stýrir argentínska landsliðinu gegn Íslandi í fyrsta leik liðanna á HM í fótbolta í Rússlandi íhugar þjálfarinn lögsókn vegna ásakana um kynferðislega áreitni.

Fjölmiðlar um allan heim og auðvitað ekki síst í Argentínu hafa fjallað um ásakanir þess efnis að Sampaoli hafi kynferðislega áreitt kokk argentínska landsliðsins. Claudio Tapia, formaður argentínska knattspyrnusambandsins, tjáði sig um málið við fjölmiðla og sagði um hreinar lygar að ræða. Argentínska lögreglan hefur einnig gefið út að engin ákæra hafi borist sem hægt væri að tengja við málið.

„Þegar við fáum hlutlæga gagnrýni þá hjálpar það okkur. En það er ekki þannig þegar eitthvað illt býr að baki. Við efumst oft um það að öllum sé annt um hag argentínsks fótbolta. Ef það er alltaf þannig að einhver er að reyna að skaða landsliðið þá er augljóslega eitthvað í gangi. Ég hef fulla trú á heiðarleika okkar þjálfara. Ég veit hvernig manneskja hann er. Þessar sögur eru allar lygar, úr lausu lofti gripnar,“ sagði Claudio Tapia, formaður argentínska knattspyrnusambandsins, við TyC Sports.

Samkvæmt Clarín, útbreiddasta blaði Argentínu, er ekki ljóst hvaðan ásakanirnar komu til að byrja með. Þar er talað um þrjár hljóðupptökur sem gengið hafi manna á milli á samfélagsmiðlum. Fjölmiðlamaðurinn Gabriel Anello fjallaði svo um málið í útvarpsþætti sínum í Argentínu. Sagði hann argentínska sambandið reyna allt sitt til þess að þagga málið niður og koma í veg fyrir að meint fórnarlamb legði fram kæru, en að allir sem hann hefði talað við innan sambandsins staðfestu að málið væri á rökum reist.

Anello hefur áður komist í kastljósið en leikmenn argentínska landsliðsins töluðu ekki við fjölmiðla í heilt ár eftir að Anello hélt því fram árið 2016 að Ezequiel Lavezzi hefði verið rekinn úr landsliðshópnum fyrir að reykja maríjúana í æfingabúðum landsliðsins.

Hvernig sem málinu er háttað segir Clarín að ljóst sé að því fylgi enn einn höfuðverkurinn frir Sampaoli þjálfara fyrir leikinn við Ísland. Áður hafði Argentína hætt við síðasta vináttulandsleik sinn fyrir HM sem fram átti að fara í Ísrael, og tveir byrjunarliðsmenn Argentínu, markvörðurinn Sergio Romero og Manuel Lanzini, verið teknir út úr landsliðshópnum vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert