Stórkostleg batamerki milli leikja

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar. Haraldur Jónasson / Hari

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í körfuknattleik karla, var svekktur með að lið hans hafi ekki náð að klára leikinn gegn KR í Dominos-deildinni í kvöld, sem tapaðist naumlega, 108:113.

Í samtali við mbl.is eftir leik sagðist hann þó mjög ánægður með frammistöðu liðsins, en liðið er enn án sigurs eftir fjórar umferðir. „Frammistaðan er sú besta sem við höfum sýnt í vetur og batamerki á milli leikja stórkostleg.

Við þurfum að komast yfir þennan hjalla að klára leik. Við gerum vel, orkan í okkur er fín og við spilum góðan liðskörfubolta í dag. Það er bara tímaspursmál hvenær við hefjum okkur á flug.“

Viðar sagði ekkert eitt hafa farið úrskeiðis í leiknum í dag. „Nei þegar þú ert með körfuboltaleik þá ertu með fullt af dæmum hér og þar, það er ekki hægt að benda á eitthvað eitt. KR-ingar hittu úr stórum skotum í lokin og við settum saman fína frammistöðu.

Auðvitað höfum við ennþá svigrúm til bætinga og við þurfum bara að halda áfram að vinna í rétta átt. Um leið og það kemur hálft skref í viðbót, þá rjúfum við múrinn.“

Honum líst vel á framhaldið. „Þetta er bara gaman. Maður sefur lítið og hugsar bara um körfubolta og hina vinnuna sína allan sólarhringinn. Þetta er skemmtilegt, leikir tvisvar í viku og lítill tími á milli. Þá er bara að jafna sig og finna orku í næsta leik á sunnudag,“ sagði Viðar að lokum í samtali við mbl.is, en Höttur fær Tindastól í heimsókn á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert