Suðurnesjaslagur í Kópavogi

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur.
Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Gott að koma hingað og klára þetta,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, í samtali við mbl.is eftir að lið hans tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta. 

Njarðvík vann Val, 82:67, í Valsheimilinu á Hlíðarenda í kvöld. Vann Njarðvík því einvígið, 3:1, og mætir Grindavík í undanúrslitum. 

„Við erum sátt. Það er gott að koma hingað og klára þetta. Þetta var ekki fallegasti körfuboltaleikurinn, mikill barningur og ekki frábær hitni. 

Við sýndum hins vegar nóg og í öðrum leikhluta lögðum við grunninn að sigrinum. Svo var jafnræði á milli liðanna í seinni hálfleik en ég hefði viljað klára þetta fyrr. 

Valsliðið barðist og vildi ekki fara í sumarfrí þannig það var gott að klára leikinn. 

Við eigum margt inni og getum gert meira af þessu. Ég er heppinn þjálfari með gott lið og það er erfitt að finna mínútur fyrir hvern og einn leikmann. 

Við getum verið betri að refsa mistökum andstæðingsins. Við erum svolítið hikandi í skotstöðu og þurfum að laga það, það mun ekki ganga gegn Grindavík. 

Þetta snýst um sjálfstraust og að vera ekki hrædd við neitt,“ sagði Rúnar Ingi.

Hafa verið svakalegir síðustu ár

Eins og áður kom fram mætir Njarðvík Grindavík í undanúrslitum en fyrsti leikur liðanna fer fram í Smáranum í Kópavogi þar sem Grindavík hefur leikið undanfarna mánuði.

„Suðurnesjaslagur sem byrjar í Kópavoginum. Leikirnir gegn Grindavík hafa verið svakalegir síðustu ár, mikill barningur. 

Ég trúi því að fyrsti leikurinn verður mikil varnarbarátta. Stefnir í hörkuleiki og ég hlakka til að mæta í frábæru umgjörðina í Smáranum,“ bætti Rúnar Ingi við í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert