Svisslendingar eyða mestu á Íslandi

Að meðaltali eyddi hver Svisslendingur 292.000 kr. í heimsókn sinni …
Að meðaltali eyddi hver Svisslendingur 292.000 kr. í heimsókn sinni á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svisslendingar eru sá hópur ferðamanna sem eyddi mest í neyslu hér á landi á síðasta ári. Að meðaltali eyddi hver Svisslendingur 292 þúsund krónum í heimsókn sinni á Íslandi.

Til samanburðar var meðalneysla á erlendan ferðamann um 154 þúsund krónur. Alls námu heildarútgjöld Svisslendinga til ferðalaga hér á landi um 8,8 milljörðum kr. Alls heimsóttu 30.200 Svisslendingar landið í fyrra, að því er lesa má úr hagsjá Landsbankans.

Þá segir, að ef horft sé á meðalneyslu ferðamanna eftir þjóðerni hafi Svisslendingar trónað á toppnum hér á landi síðustu ár. Þeir hafi yfirleitt verið í nokkrum sérflokki á þennan mælikvarða og eytt töluvert meiru í neyslu en þær þjóðir sem á eftir hafa komið.

Danir í öðru sæti

Á síðasta ári voru Danir með næstmestu neysluna, eða 185 þúsund króna meðalútgjöld á hvern ferðamann. Meðalútgjöld Svisslendinga voru því 58% meiri en meðalútgjöld Dana.

Neysla þeirra 6 þjóða sem koma næstar á eftir Svisslendingum liggur á nokkuð þröngu bili, eða frá 163-185 þúsund. Í þessum hópi eru Noregur sem kemur næstur á eftir Dönum með 178 þúsund, Þjóðverjar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Hollendingar.

Asíuþjóðirnar eyða minna enda ferðakostnaður hærri

Sé litið til þeirra þjóða sem eru neðstar á listanum eru Japan, Kína og Pólland mest áberandi. Kínverjar og Japanar eru einu Asíuþjóðirnar sem taldar eru sérstaklega inn í landið.

Fram kemur, að neysluútgjöld Japana hafi að meðaltali verið 97 þúsund á hvern ferðamann í fyrra en 87 þúsund hjá hverjum Kínverja. Þessi litla neysla Asíuþjóðanna tveggja skýrist án efa að einhverju leyti af því að þær koma um langan veg og þurfa þess vegna að reiða fram umtalsvert meira fé vegna ferðakostnaðar, að því er segir í hagsjánni.

Pólverjar skera sig enn frekar úr hópnum en Japanar og Kínverjar. Meðalneysluútgjöld þeirra eru einungis 28 þúsund á hvern ferðamann. Þessi litla meðalneysla skýrist af því að stór hluti þeirra Pólverja sem fara í gegnum Leifsstöð eru ýmist fólk sem býr hér á landi eða sækir hingað tímabundna atvinnu og er því ekki ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK