„Þetta gæti verið svo miklu verra“

Skarphéðinn óttast ekki að aðgerðir WOW air í dag kom …
Skarphéðinn óttast ekki að aðgerðir WOW air í dag kom til með að þýða samdrátt í ferðaþjónustu. mbl.is/Eggert

„Við höfum ekki ástæðu til að ætla að samdráttur í ferðamennsku verði eitthvað í líkingu við það sem samdrátturinn hjá WOW verður á næsta ári. Að þetta muni þýða færri sæti fyrir ferðamenn á leið til Íslands. Auðvitað getur það verið en það er ekkert sem segir að þannig verði það,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri um aðgerðir WOW air í dag.

111 fastráðnum starfsmönnum var sagt upp og samningar verða ekki endurnýjaðir við verktaka og tímabundna starfsmenn. Uppsagnirnar ná því til 350 starfsmanna fyrirtækisins. Þá verður flugvélum félagsins fækkað úr 20 í 11, en félagið er í samningaviðræðum um skil á öllum þeim breiðþotum sem hafa verið í notkun.

Skarphéðinn segir að taka þurfi fleiri breytur með í reikninginn og því óttast hann ekki að aðgerðir WOW air komi til með að hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna hér á landi.

„Auðvitað er þetta dimmur dagur hjá WOW og öllu því fólki sem þar á í hlut, en ef maður reynir að velta fyrir sér hvaða áhrif þetta getur haft þá er margt sem þarf að horfa til. Þetta er talsverður samdráttur í flugi, kannski nálægt 40 til 50 prósent. En þá skiptir máli hvaða farþegar eru í sætunum sem verður ekki flogið. Maður myndi ætla að vægi tengifarþega væri hærra en annarra hópa sem detta út.

Hann bendir á að hlutfall tengifarþega hjá WOW air sé nú um 70 prósent, en árin 2015 og 2016 hafi það verið nær 50 prósentum. Staðan geti því orðið svipuð og hún var á þeim tíma. Þá eigi eftir að koma í ljós hverjar áherslur WOW air verði.

„Þetta þýðir auðvitað fækkun hjá WOW en þá er spurning hve mikið aukning hjá Icelandair muni vega það upp. Þeir hafa nú þegar sett inn aukningu í leiðakerfi sitt næsta sumar. Það er því spurning, þegar þetta er allt vegið saman, hvaða áhrif það muni hafa. Það er ekkert víst að þetta muni þýða fækkun á þeim sætum sem standa til boða ferðamönnum sem eru á leiðinni til Íslands,“ segir Skarphéðinn og bendir jafnframt á að það eigi eftir að koma í ljós hver viðbrögð annarra flugfélaga verði.

„Þessi aðgerð í dag bendir til þess að WOW muni hafa þetta og í því felast jákvæð merki fyrir ferðaþjónustuna. Að allt þeirra sætaframboð muni ekki fara af markaðnum.

Þó að það verði samdráttur þá virðist félagið ætla að hafa það af. Það er í sjálfu sér bara að fara niður í það sem það var 2015 og 2016 og getur þá spyrnt sér aftur frá þeim stað. Þetta gæti verið svo miklu verra,“ segir Skarphéðinn.

Í lok síðasta mánaðar var greint frá því að fjár­fest­inga­fé­lagið Indigo partners og WOW air hefðu náð bráðabirgðasam­komu­lagi um að Indigo fjár­festi í fé­lag­inu. Kaup­in voru þó gerð með fyr­ir­vara um áreiðan­leika­könn­un. Hópur frá Indigo kom hingað til lands í byrjun mánaðarins til að taka þátt í viðræðunum, en vonast er til að þær geti gengið fljótt fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK