Leyfa Kínverjunum að borga eins og þeir væru heima hjá sér

Stefán Þór Stefánsson framkvæmdastjóri Central Pay
Stefán Þór Stefánsson framkvæmdastjóri Central Pay mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeim íslensku fyrirtækjum fer fjölgandi sem taka við greiðslum í gegnum kínversku ofurforritin Alipay og WeChat Pay. Eins og Stefán Þór Stefánsson og Danielle Neben benda á geta þessi forrit verið dýrmætt markaðstæki og jafnvel gátt fyrir íslenska seljendur inn á kínverska markaðinn.

Máski hafa lesendur tekið eftir því undanfarin misseri að við afgreiðslukassa og úti í glugga sumra verslana og veitingastaða hafa birst lítil skilti sem auglýsa Alipay og WeChat Pay. Um er að ræða kínverska greiðslumiðlunartækni sem fyrirtækin Central Pay og ePassi hafa verið að innleiða hér á landi, m.a. til að hjálpa seljendum að laða til sín kaupglaða kínverska ferðamenn.

Stefán Þór Stefánsson, framkvæmdastjóri Central Pay, tekur undir með blaðamanni að tæknin að baki Alipay og WeChat Pay kunni að virka framandi í augum Íslendinga sem eru löngu orðnir vanir því að stinga greiðslukorti í posa til að borga fyrir stórt sem smátt. Central Pay er íslenskt fyrirtæki sem starfar með hollenskum og kínverskum aðilum sem boðið hafa upp á Alipay og WeChat Pay víða í Evrópu allt frá árinu 2015.

Danielle Neben hjá ePassi.
Danielle Neben hjá ePassi. mbl.is/​Hari

„Kínverjarnir eru svolítið á undan okkur hvað þetta varðar og búnir að temja sér að nota lausnir þar sem allir bankareikningar og kort notandans eru tengd saman í einu forriti í símanum og hægt að nota símtækið til að borga fyrir vörur og þjónustu,“ segir Stefán og bendir á að vinsældir greiðslumáta eins og WeChat Pay og Alipay kunni m.a. að skrifast á að greiðslukort hafa ekki náð sömu útbreiðslu í Kína og á Vesturlöndum. „En í Kína eru allir með snjallsíma við höndina og búið að þróa greiðslukerfin þannig að mjög auðvelt er að nota símann til að borga.“

Forrit sem gera nánast hvað sem er

Danielle Pamela Neben stýrir markaðsstarfi ePassi og Nordic Business House á Íslandi. Síðarnefnda fyrirtækið er sérhæft í lausnum fyrir kínverska samfélagsmiðla, staðsett í Sjanghaí og Stokkhólmi en ePassi er finnskt fyrirtæki, stærsta farsímagreiðsluþjónustufyrirtæki Norðurlanda og starfar undir eftirliti finnska fjármálaeftirlitsins með greiðsluleyfi sem nær til ESB, Noregs og Íslands. Bæði Danielle og Stefán leggja áherslu á að Alipay og WeChat Pay séu mun meira en bara greiðsluforrit. Alipay varð til í kringum netverslunarrisann Alibaba og WeChat Pay spratt upp úr vinsælasta samfélagsmiðli Kínverja, WeChat. „Þetta eru svokölluð „súper-öpp“ sem er hægt að nota bæði eins og spjallforrit og samfélagsmiðil, leitarvél og tól til að gera allt frá því að panta skutl með Uber yfir í að kaupa flugmiða eða hlutabréf. Notendur geta leitað upplýsinga um veitingastaði, pantað borð eða heimsendan mat, og skipt á milli sín reikningum ef svo ber undir,“ útskýrir Danielle sem starfaði áður hjá HSBC í tvo áratugi. „Við þessi forrit getur fólk síðan tengt alla bankareikninga sína og, í tilviki Alipay, allt að tíu greiðslukort. Kínverskur ferðamaður getur ráðið því hvaðan peningarnir eru teknir þegar forritið er notað til greiðslu og sýna rannsóknir að hinn dæmigerði Kínverji kaupir fjórfalt meira þegar hann borgar með farsímagreiðslu en þegar hann greiðir með korti eða reiðufé.“

Lesa má ítarlegt miðopnuviðtal við Stefán og Danielle í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK