Skúli staðfesti kyrrsetningu vélarinnar

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, í héraðsdómi í dag.
Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, í héraðsdómi í dag. mbl.is/Eggert

Isavia undirstrikaði fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag að félagið vinni alfarið innan lagaheimildar sem geri því kleift að kyrrsetja farþegaþotu í eigu bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC sem WOW air var með á leigu. Þá hafi ALC ávallt getað fengið þotuna til umráða með tryggingu fyrir greiðslu skuldarinnar.

Málflutningur hófst í Héraðsdómi Reykjaness í morgun, en ALC krefst þess að Isavia aflétti kyrrsetningu vélarinnar. Hefur hún verið í vörslu Isavia frá gjaldþroti WOW air, til tryggingar nærri tveggja milljarða króna skuld WOW air við Keflavíkurflugvöll.  Tekist er á um hvort Isavia hafi lagaheimild í loftferðarlögum til þess að halda vélinni. Isavia hefur ávallt talið að svo sé og krefst þess að kröfu ALC sé hafnað.

Sjá umfjöllun mbl.is um málflutning lögmanna ALC frá því fyrr í dag, HÉR.

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, sagði að lagaheimildin falli undir þau gjöld sem tengjast farþegaþotunni, eða öðrum vélum sem leigutaki hafði til umráða. Það sé mjög ótrúverðugt að ALC hafi ekki vitað af fjárhagsvandræðum WOW air, sérstaklega þar sem 16 af 20 vélum WOW air hafi verið í leigu frá móðurfélagi ALC. Því sé ekkert sem ætti að koma ALC á óvart í kyrrsetningunni.

„Það mátti leigusala [ALC] vera ljóst að ef loftfar hans stendur til greiðslu skuldar leigutaka [WOW air], þá myndi sú trygging standa áfram þó leigutakinn yrði gjaldþrota,“ sagði Hlynur. ALC gæti hins vegar lagt fram fullnægjandi tryggingu til greiðslu skuldar og fengið vélina til umráða. Sú sáttatillaga sem ALC hafi lagt fram sé ekki fullnægjandi.

„Fjárhæðin sem hann býður til sáttagreiðslu nemur 3% til greiðslu skulda sem mál þetta varðar og er ekki fullnægjandi trygging,“ sagði Hlynur.

WOW air var með 16 þotur á leigu frá móðurfélagi …
WOW air var með 16 þotur á leigu frá móðurfélagi ALC. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vélin var skráð í umráði WOW við kyrrsetningu

Í málflutningi sínum benti Hlynur á dómafordæmi Hæstaréttar þar sem greinilega hafi verið bent á rétt Isavia til þess að kyrrsetja vélina vegna skulda. Ljóst sé að greiðsluskylda hvíli á skráðum umráðanda íslenskra loftfara og á eigendum erlendra loftfara.

„Þó lögmenn gerðarbeiðanda [ALC] hafi verið í vandræðum með að skilja efni ákvæðisins hafi Hæstiréttur verið búinn að slá því föstu hvernig beri að túlka ákvæðið,“ sagði Hlynur.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag bentu lögmenn ALC í sínum málflutningi á að lagaákvæðið um rétt til kyrrsetningar félli aðeins undir núverandi umráðahafa farþegaþoti. ALC sé nú umráðandi vélarinnar eftir gjaldþrot WOW air og því hafi Isavia ekki heimild til þess að kyrrsetja vélina.

Hlynur benti hins vegar á að vélin hafi verið skráð í umráði WOW air við kyrrsetningu vélarinnar 28. mars. Skráningu hafi ekki verið breytt hjá Samgöngustofu fyrr en þann 4. apríl, það sé óumdeilt og staðfest af Samgöngustofu.

Lögmenn ALC hafa sagt að það hafi komið sér mjög á óvart þegar Isavia ákvað að kyrrsetja vélina. Hlynur benti á að ekki sé nauðsynlegt að beina tilkynningu um slíkt bæði til umráðanda og eiganda loftfara. Skúla Mogensen, fyrrum forstjóra WOW, hafi verið greint frá kyrrsetningunni í tölvupósti að morgni 28. mars, og hann hafi staðfest móttöku.

„Í ljósi þess er hafið yfir allan vafa að gerðarþoli [Isavia] beitti heimild sinni réttilega,“ sagði Hlynur.

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, í héraðsdómi.
Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, í héraðsdómi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gjaldskrá Isavia er vel aðgengileg

Í málflutningi lögmanna ALC fyrr í dag sagði að Isavia hefði ekki getað upplýst um endanlega fjárhæð sem félagið krefst að sé borguð til þess að losa vélina. Þrátt fyrir það sé krafist greiðslu. Hlynur benti á að gjaldskrá Isavia sé aðgengileg í alþjóðlegri flugbók og sé það fyrsta sem skoðað sé áður en ákveðið sé að leyfa flugvélum að fara á nýja flugvelli.

Móðurfélag ALC hafi nú 370 farþegaþotur í leigu hjá 200 viðskiptavinum í 70 löndum, og því ætti félagið að vera vel upplýst um mögulegar greiðslur eða hvar þær væri að finna.

Þá sagði Hlynur að Isavia sé rekstraraðili alþjóðaflugvallar og skilt að taka við öllum vélum og veita þeim aðstöðu. ALC hefði ekki getað leigt vél til WOW air nema með því að nota starfsemi Isavia. Aðstaða á Keflavíkurflugvelli sé skilyrði þess að hægt sé að afla tekna af vélinni.

Isavia sé ekki rekið af skattfé almennings heldur reki sig á lántöku og gjaldtöku til að standa undir rekstri og starfsemi. Ekki sé gerð krafa að rekstraraðili og eigandi flugvéla sé sami aðilinn. Isavia er skilt að veita sína þjónustu og geti ekki valið viðskiptavini sína hvort þeir séu líklegir til þess að borga eða ekki.

„Menn geta safnað skuldum úti um víðan völl og svo flogið í burtu frá þeim. Það sé því ómögulegt að tryggja greiðslur nema hafa úrræði til þess með lögmætum kröfum,“ sagði Hlynur og undirstrikaði lagaheimild Isavia til þess að kyrrsetja vélina.

Úrskurður verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness klukkan 16 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK