Marel kaupir helmingshlut í Curio

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. Ljósmynd/Marel

Marel hefur keypt helmingshlut í íslenska hátækni fiskvinnsluframleiðandanum Curio auk þess að eiga kauprétt að eftirstandandi 50% eftir fjögur ár. Curio hlaut nýsköpunarverðlaunin í gær, en félagið sérhæfir sig í frumvinnslu hvítfisks; flökun, hausun og roðflettingu.

Þá hefur Marel einnig keypt ástralska hugbúnaðarfyrirtækið Cedar creek company, en félagið sérhæfir sig í lausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu.

Frá þessu er greint í tilkynningu samhliða uppgjöri þriðja ársfjórðungs sem sent var til Kauphallarinnar nú eftir lokun markaða í dag.

Curio er með árstekjur upp á 10 milljónir evra, en árstekjur Cedar eru 3 milljónir evra. Búist er við að kaup á báðum fyrirtækjunum gangi í gegn formlega á fjórða ársfjórðungi.

Marel hagnaðist um 33,4 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi, en það er um 7 milljónum evra betri afkoma en á sama tíma í fyrra. Þá var pantanastaðan um 20 milljónum hærri en á sama tíma í fyrra, eða 285 milljónir evra. Tekjur á ársfjórðungnum námu 312,5 milljónum evra og hagnaður fyrir skatta og afskriftir var 44,3 milljónir evra.

Fulltrúar Curio tóku við nýsköpunarverðlaununum með bros á vör í …
Fulltrúar Curio tóku við nýsköpunarverðlaununum með bros á vör í gær, en í gær voru kaupin til Marel einnig undirrituð. Ljósmynd/Aðsend

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, að reksturinn hafi gengið vel. „Mótteknar pantanir voru 285 milljónir evra sem er nokkuð lægra en við vonuðumst eftir. Engu að síður aukast pantanir um 7% milli ára. Aðstæður á markaði eru krefjandi fyrir matvælaframleiðendur vegna umróts á alþjóðamörkuðum. Í slíkum aðstæðum geta pantanir auðveldlega sveiflast á milli ársfjórðunga,“ er haft eftir honum.

Þá segir Árni að fyrirtækið tryggi áframhaldandi nýsköpun og markaðssókn með kaupum á fyrirtækjum. „Við tryggjum áframhaldandi vöxt með nýsköpun og markaðssókn, studda af yfirtökum og strategískum samstarfssamningum. Kaup á Cedar Creek Company munu styrkja stöðu Marel í hugbúnaðarlausnum í Eyjaálfu. Samstarf við TOMRA Food er ætlað að styrkja enn frekar okkar sterku stöðu í skynjaralausnum til að hámarka verðmæti afurða, lágmarka sóun í framleiðslu og auka matvælaöryggi. Síðast en ekki síst, þá erum við mjög spennt að taka höndum saman með Curio sem færir okkur nær því að bjóða heildarlausnir fyrir fiskvinnslu um heim allan.”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK