Ísland meira googlað

Sólfarið er eitt helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hingað koma.
Sólfarið er eitt helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn sem hingað koma. mbl.is/Árni Sæberg

Spá Seðlabanka Íslands um framboð á flugsætum til og frá Íslandi getur bæði verið of bjartsýn eða of svartsýn, segir í Peningamálum sem komu út í dag.

„Mikill samdráttur varð á flugsætum til og frá landinu í kjölfar gjaldþrots WOW Air sl. vor. Icelandair náði að einhverju leyti að mæta samdrættinum en kyrrsetning nýrra Boeing 737 Max-þota félagsins gerði því erfiðara fyrir að auka sætaframboð. Upphaflega stóð til að vélarnar yrðu fjórðungur af flota fyrirtækisins í sumar en fljótlega varð hins vegar ljóst að vélarnar færu ekki í loftið fyrr en í haust og því var síðan frestað enn frekar eða til áramóta. Nýlegar fréttir benda til þess að það gangi ekki eftir og því gerir grunnspá bankans ráð fyrir að vélarnar verði ekki teknar í notkun fyrr en snemma á næsta ári og, ef það gengur ekki eftir, að Icelandair takist að verða sér úti um leiguvélar í staðinn. Ekki er hins vegar útilokað að kyrrsetning vélanna vari lengur og að ekki takist að leigja aðrar vélar í staðinn þar sem mörg önnur flugfélög eru í svipaðri stöðu.

Forsenda grunnspárinnar um framboð á flugi til og frá landinu á næsta ári gæti því verið of bjartsýn. Forsenda grunnspárinnar um framboð á flugi til og frá landinu gæti hins vegar einnig verið of svartsýn í ljósi frétta af nýjum flugfélögum sem eru að rísa úr ösku hins fallna WOW Air. Það félag sem virðist lengst komið hefur þegar sótt um flugrekstrarleyfi og hyggst hefja starfsemi á næsta ári. Þá gætu alþjóðleg flugfélög sem þegar fljúga til landsins aukið umsvif sín meira en grunnspáin gerir ráð fyrir,“ segir í Peningamálum.

Flugferðum til og frá landinu fækkaði alls um 29% milli …
Flugferðum til og frá landinu fækkaði alls um 29% milli ára á þriðja fjórðungi ársins.

Ferðaþjónustan vegur þungt í samdrætti

Útflutningur á vöru og þjónustu dróst saman um 6,9% milli ára á öðrum ársfjórðungi en á fyrri hluta ársins nam samdrátturinn 2,8% sem er lítillega minni samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir í ágústspá bankans.

Þjónustuútflutningur dróst saman um 9,2% á fyrri hluta ársins en þar vegur samdráttur í útflutningi tengdum ferðaþjónustu þungt. Hann má að langmestu leyti rekja til gjaldþrots flugfélagsins WOW Air og minni aukningu sætaframboðs Icelandair vegna kyrrsetningar nýrra Boeing 737 Max-þota þeirra. Einnig drógust útflutningstekjur af erlendum ferðamönnum hér á landi saman en á móti mikilli fækkun ferðamanna vó umtalsverð aukning meðalútgjalda á hvern ferðamann.

Arn­ar Már Magnús­son, for­stjóri Play, kynnti fyrirætlanir félagsins á flugmarkaði.
Arn­ar Már Magnús­son, for­stjóri Play, kynnti fyrirætlanir félagsins á flugmarkaði. mbl.is/Hari

Samdráttur í útflutningi á sjávarfangi og áli

Vöruútflutningur dróst saman um 2,9% á öðrum ársfjórðungi einkum vegna mikils samdráttar útflutnings sjávarafurða þar sem engar aflaheimildir voru gefnar út fyrir loðnu í ár. Útflutningur á áli dróst einnig saman milli ára en á móti jókst útflutningur á ýmsum iðnaðarvörum.

„Þrátt fyrir samdrátt vöruútflutnings á öðrum fjórðungi mældist rúmlega 3% aukning vöruútflutnings milli ára á fyrri hluta ársins. Aukningin skýrist hins vegar að umtalsverðu leyti af útflutningi skipa og flugvéla sem má að mestu leyti rekja til sölu flugvéla úr rekstri WOW Air. Án útflutnings á skipum og flugvélum mældist 7,1% samdráttur útflutnings vöru og þjónustu á fyrri hluta ársins.“

AFP

17% fækkun ferðamanna

Miðað við þróun útgjalda erlendra ferðamanna hér á landi eru horfur á að útflutt ferðalög dragist enn frekar saman á seinni hluta ársins en þó minna en spáð var í ágúst. Erlendum ferðamönnum fækkaði um 17% milli ára á þriðja ársfjórðungi sem er heldur minni fækkun en á öðrum fjórðungi og minni en gert var ráð fyrir í ágústspánni.

Á sama tíma benda kortaveltutölur til þess að meðaleyðsla ferðamanna hafi aukist nokkuð umfram það sem þá var gert ráð fyrir. Aðrar vísbendingar benda einnig til þess að tekjur ferðaþjónustunnar hafi dregist minna saman en ætla mætti út frá fækkun ferðamanna.

Horfur versnað á ný

„Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofunnar bendir t.d. til þess að ferðamenn dvelji að meðaltali lengur á landinu. Þá fjölgaði gistináttum erlendra ferðamanna á hótelum um 0,7% milli ára á þriðja fjórðungi en á móti vegur þó samdráttur á öðrum gistimöguleikum. Einnig fækkaði gistináttum erlendra ferðamanna í heild mun minna en sem nam fækkun ferðamanna á fyrri helmingi ársins.

Aukna ásókn í hótelgistingu og meiri veltu á hvern ferðamann má mögulega rekja til þess að samsetning ferðamanna sem koma til landsins hefur breyst sem og neysluhegðun þeirra í kjölfar hlutfallslega minni umsvifa lággjaldaflugfélaga á Keflavíkurflugvelli. Þá bendir fjöldi Google-leita tengdra Íslandsferðum til þess að áhugi á Íslandi sé mögulega að aukast á ný.

Horfur um flugsamgöngur hafa hins vegar versnað og óvissa um þær er ennþá mikil. Helstu hagvísar fyrir þriðja ársfjórðung, sem er háannatími í ferðaþjónustu á Íslandi, sýna heldur meiri samdrátt útflutningstekna af flugsamgöngum hjá innlendum félögum en búist var við í ágúst sakir meiri lækkunar flugfargjalda og lægra nýtingarhlutfalls.

Flugferðum til og frá landinu fækkaði alls um 29% milli ára á þriðja fjórðungi ársins. Á móti minna sætaframboði innlendra flugfélaga kom hins vegar aukning á sætaframboði erlendra flugfélaga. Búist er við að sætaframboð til og frá Keflavíkurflugvelli verði 22% minna á næstu tveimur ársfjórðungum en á sama tíma í fyrra,“ segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

AFP

Aukið framboð erlendra flugfélaga á móti minna framboði flugsæta hjá innlendum flugfélögum vegur þar þyngst og stefnir markaðshlutdeild erlendra félaga að öðru óbreyttu í að vera liðlega þriðjungur í vetraráætlun Keflavíkurflugvallar.

Áhrifa kyrrsetningar MAX-þota Icelandair gætir enn þá í áætlun þeirra og óvissa um flotamál félagsins ásamt verri efnahagshorfum á heimsvísu gera það að verkum að spáin fyrir útfluttar samgöngur hefur verið færð niður í ár og fyrir næsta ár. Á heildina litið er því útlit fyrir að það bæti í samdrátt í ferðaþjónustu á seinni helmingi þessa árs og að í heild dragist útflutt þjónusta saman um tæplega 12% á árinu öllu en í ágúst var gert ráð fyrir liðlega 11% samdrætti.

Óvissan í gengismálum minni en í sumar

Grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir að gengi krónunnar breytist lítið á næstu misserum. Um þessa forsendu er töluverð óvissa sem endurspeglar þá efnahagsþætti sem í meginatriðum ráða gengisþróuninni eins og t.d. hagvaxtarhorfur hér og erlendis, þróun vaxtamunar gagnvart útlöndum og horfur um viðskiptakjör þjóðarbúsins.

Óvissa um gengishorfur virðist þó heldur minni nú en í fyrra út frá sundurleitni í væntingum markaðsaðila um gengi krónunnar á næstu tveimur árum, samkvæmt grein í Peningamálum. Sundurleitnin er minni nú en hún var í lok síðasta árs en hún hafði aukist fram eftir árinu með vaxandi áhyggjum af kjarasamningum og almennum efnahagshorfum. 

„Gengi krónunnar lækkaði haustið 2018 í kjölfar frétta af fjármögnunarvanda flugfélagsins WOW Air og vegna rýrnunar viðskiptakjara. Á sama tíma fór að bera á aukinni svartsýni um efnahagshorfur og niðurstöðu kjarasamninga. Gengið hélst tiltölulega stöðugt á fyrri hluta þessa árs þrátt fyrir gjaldþrot WOW Air og áhyggjur af snörpum viðsnúningi í efnahagsmálum. Það hefur einnig verið nokkuð stöðugt það sem af er hausti eftir tímabundnar sveiflur í sumar og er það 0,7% lægra nú en það var við útgáfu Peningamála í ágúst.“

Keyptu gjaldeyri fyrir 2 milljarða

Frá því í ágúst hefur Seðlabankinn einu sinni beitt inngripum og keypt gjaldeyri fyrir um 2 ma.kr. sem nam um 8% af heildarveltu á markaðnum á tímabilinu. Markaðsaðilar vænta lítilla breytinga á gengi krónunnar

Samkvæmt könnun bankans á væntingum markaðsaðila sem gerð var í lok október búast þeir við að gengi krónunnar verði nær óbreytt gagnvart evru í október á næsta ári en lítillega lægra að tveimur árum liðnum. Þetta er í takt við væntingar þeirra í sambærilegri könnun frá ágúst sl. Sundurleitni í svörum markaðsaðila hefur minnkað frá áramótum sem gæti bent til þess að þeir telji að óvissa um gengishorfur sé minni en hún var sl. haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK