Vaxandi líkur á óbreyttum stýrivöxtum

Hvað gerir Seðlabankinn 8. maí?
Hvað gerir Seðlabankinn 8. maí? mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn af fimm nefndarmönnum sem eiga sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi lækka stýrivexti í mars líkt og í febrúar. Fram kemur í Korni Íslandsbanka að komandi vikur geti orðið viðburðaríkar og ráðið úrslitum um hvort vaxtalækkunarferli Seðlabankans hefst í maí.

Þá segir að vaxandi líkur séu þó á því að stýrivextir verði óbreyttir að minnsta kosti fram undir sumarlok.

Þetta skrifar Jón Bjarki Bents­son, aðalhagfræðingur bankans, í Korni Íslandsbanka. 

Jón Bjarki Bentsson.
Jón Bjarki Bentsson. Ljósmynd/Aðsend

Þar fjallar hann um fundargerð frá fundum peningastefnunefndar fyrir vaxtaákvörðun í mars, sem var birt nýlega. Þar komi fram að ekki hafi verið einhugur meðal nefndarmanna um ákvörðunina.

„Líkt og í febrúar var Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á annarri skoðun en aðrir meðlimir peningastefnunefndar og vildi lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Hinir fjórir nefndarmeðlimirnir kusu með tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um óbreytta vexti,“ segir í Korninu. 

Jón Bjarki bendir á að næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans sé eftir rúman mánuð, þann 8. maí. Þróunin á komandi vikum muni væntanlega ráða úrslitum um hvort vaxtalækkunarferli verður ýtt úr vör þá.

Stórir erlendir aðilar ganga margir hverjir frá endanlegum pöntunum sínum …
Stórir erlendir aðilar ganga margir hverjir frá endanlegum pöntunum sínum á gistingu, afþreyingu o.þ.h. í aprílmánuði. Eggert Jóhannesson

Meðal þess helsta sem við horfum til í þeim efnum:

  • Verðbólgumæling aprílmánaðar gæti ráðið úrslitum. Með hliðsjón af ofangreindri skoðun meirihluta nefndarinnar þyrfti líklega hagfellda aprílmælingu og talsverða hjöðnun 12m verðbólgu í apríl til þess að meirihlutinn skipti um skoðun í maí. Í apríl 2023 hækkaði VNV um 1,3% milli mánaða. Bráðabirgðaspá okkar fyrir apríl hljóðar upp á 0,6% mánaðarhækkun sem myndi lækka 12 mánaða takt verðbólgunnar í 6,1%. Hvort það dugar til að meirihluti nefndarinnar skipti um skoðun í maí veltur á því hvort aðrir mælikvarðar á undirliggjandi og vænta verðbólgu þróast með svipuðum hætti og eins hvernig aðrir þættir hér að neðan þróast.
  • Kjarasamningar gætu verið í höfn hjá flestum þeirra sem enn er ósamið við fyrir vaxtaákvörðunina í maí. Niðurstaða úr þeim í línu við þegar gerða samninga eykur líkur á vaxtalækkun.
  • Fjármálaáætlun verður lögð fram á komandi vikum. Þar skiptir miklu máli hvort, og hvernig, brugðist er við útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna Grindavíkur og kjarasamninga svo aðhald ríkisfjármála á komandi misserum minnki ekki frá fyrri áætlunum og fjárlögum.
  • Línur skýrast um ferðasumarið 2024. Stórir erlendir aðilar ganga margir hverjir frá endanlegum pöntunum sínum á gistingu, afþreyingu o.þ.h. í aprílmánuði og þá ætti að skýrast hvort áhyggjur af dvínandi eftirspurn eftir Íslandsferðum reynast á rökum reistar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK