„Stoltur af okkar fólki“

Leikmenn FH og Sigursteinn þjálfari fagna góðum sigri á Eyjamönnum
Leikmenn FH og Sigursteinn þjálfari fagna góðum sigri á Eyjamönnum Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Mér fannst við frábærir á öllum sviðum“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, eftir frábæran sigur hans manna, 36:28, í Vestmannaeyjum í dag er liðið kom sér í 2:0 gegn Íslandsmeisturum ÍBV, sem tapa ekki oft á sínum sterka heimavelli.

Spilamennska FH-inga í dag var frábær en hversu ánægður er Steini með leikinn heilt yfir?

„Ég er rosalega ánægður, mér líður rosalega vel með liðið, mönnum líður vel og við erum mjög fókuseraðir.“

FH-ingar voru með hausinn rétt stilltan á allan tímann, voru að minna hvorn annan á að halda haus þegar munurinn var mikill og lítið eftir.

„Við vitum að við erum með gott lið, sérstaklega þegar við erum allir með eins og í dag, þá erum við hrikalega öflugir, það verður að segjast eins og er,“ sagði Sigursteinn en hver myndi hann segja að væri helsti munurinn á liðinu í ár ef hann ber það saman við lið síðustu ára hjá FH.

„Fyrst og síðast er þetta liðið sem við höfum verið að byggja upp núna síðustu ár, það hefur verið að bæta sig mikið frá ári til árs og það eru margir ungir leikmenn sem eru að taka frábær skref. Að sjálfsögðu fengum við geggjaða sendingu í Aroni, hann gefur mikið af sér og gefum mönnum trú, sem við erum svakalega ánægðir með.“

Viðtalið var tekið einhverjum 15 mínútum eftir leik en enn mátti heyra í stuðningsmönnum FH-inga syngja á pöllunum, hversu ánægður var Steini með það?

„Ég er ótrúlega stoltur af okkar fólki, að taka túrinn með okkur í dag. Þetta er miklu miklu skemmtilegra svona, ég vona að FH-ingar fylli Krikann á sunnudaginn því við ætlum að taka síðasta skrefið þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert