„Yrðum ekki fyrsta liðið í heiminum til að koma til baka úr 2:0“

Kári og Magnús Stefánsson
Kári og Magnús Stefánsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég held að tæknifeilarnir hafi drepið okkur,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði ÍBV, en liðið tapaði með átta marka mun gegn FH-ingum 28:36 á sterkum heimavelli sínum í Vestmannaeyjum. Orð Kára stuðla vel við orð Magnúsar þjálfara sem var einnig til viðtals eftir leik.

„16:18 í hálfleik, allt í jafnvægi, síðan eigum við mjög erfitt með að skora í seinni hálfleik, skorum bara fjögur mörk fyrsta korterið í seinni. Ég held líka að við töpum boltanum síðustu tíu mínúturnar örugglega 7-8 sinnum við fórum einnig illa með yfirtöluna, þetta var svona sitt lítið af hverju, sem eru ekki við,“ sagði Kári en maður sér ÍBV ekki oft kasta inn hvíta handklæðinu en það leit þannig út síðustu tíu mínúturnar í dag.

„Hvítt og ekki hvítt, eigum við að segja að síðustu fimm höfum við áttað okkur á því að það er leikur á sunnudaginn og við þurfum að vera klókir líka, þetta er ekki hefðbundinn deildarleikur og við þurfum að vera raunsæir með stöðuna á vellinum, við brugðumst þannig við.“

Dagur Arnarson í leik kvöldsins
Dagur Arnarson í leik kvöldsins Ljósmynd/Sigfús/Gunnar


Eyjamenn hafa ekki átt marga svona slaka leiki á heimavelli í úrslitakeppninni síðan Kári kom aftur í liðið fyrir þó nokkrum árum síðan.

„Alls ekki, eins og ég var að segja þá var fyrri hálfleikurinn bara tvö mörk en í seinni hálfleik dettur þetta niður hjá okkur. Við verðum mjög ólíkir sjálfum okkur í seinni hálfleik og sérstaklega í yfirtölunum okkar.“

Eiga Eyjamenn eitthvað í þetta einvígi eða er þetta of erfitt fyrir þá?

„Þetta er alltof erfitt, við ætlum bara að mæta á sunnudaginn og gefast upp,“ sagði Kári hlæjandi en lítil alvara var í því svari.

„Við yrðum ekki fyrsta liðið í heiminum til að koma til baka úr 2:0 og vinna seríu, það er nákvæmlega það sem er á dagskránni.“

Stemningin í húsinu var virkilega góð og það hlýtur að hafa verið gaman að spila í svo góðri stemningu.

„Það er mjög gaman, það er gott veður, úrslitakeppni, mikið fólk, þetta er alltaf mjög skemmtilegt og við ætlum að halda þessu lifandi og koma með annan heimaleik hérna á miðvikudaginn,“ sagði Kári en ef illa fer á sunnudaginn, var þetta síðasti heimaleikur Kára í handbolta?

„Kannski, það kemur í ljós, enginn veit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert