Man ekki eftir sambærilegum leik

Benedikt Guðmundsson
Benedikt Guðmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Njarðvík komst í undanúrslitaeinvígið gegn Val með hreint út sagt ótrúlegum sigri á Þór frá Þorlakshöfn í kvöld. Leikurinn endaði með þriggja stiga flautukörfu frá Þorvaldi Árnasyni sem kom Njarðvík yfir í leiknum og færði þeim farseðilinn í undanúrslitin gegn Val.

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var vægast sagt hrærður og glaður strax eftir leik. Hann hafði þetta að segja um leikinn:

„Ég man ekki eftir sambærilegum leik. Að enda þessa seríu með svona leik þar sem bæði lið spila frábærlega, detta niður á milli, koma til baka, fá á okkur það sem allir héldu að væri sigurkarfa en svo eru 0,9 sekúndur eftir og fá þennan þrist. Þetta var geggjað. Þú þarft að vera með sterkar taugar til að negla svona niður."

Myndir þú segja að lukkudísirnar hafi verið með Njarðvík í kvöld?

„Maður þarf smá heppni í þessum úrslitakeppnum. Vera meiðslalausir og fá eina og eina svona körfur sem breyta leikjum og það var með okkur í kvöld."

Þorvaldur Árnason tryggði sigurinn með ótrúlegri körfu.
Þorvaldur Árnason tryggði sigurinn með ótrúlegri körfu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Varstu ánægður með leik Njarðvíkur í kvöld?

„Þetta var kaflaskipt. Við í vandræðum varnarlega og vorum að breyta um vörn reglulega til að finna eitthvað sem myndi ganga. Þegar við breyttum þá virkaði það í smá stund en aldrei nógu lengi. Annars er ekkert að marka mig þar sem ég er aldrei sáttur.

Sóknarlega fannst mér vanta flæði og við gerðum árasir of snemma í stað þess að teygja á þeim. En það voru líka mjög góðir kaflar þar sem menn spiluðu vel. Við hittum t.d. mjög vel í byrjun. Síðan fer þetta í frost hjá báðum liðum í 4 leikhluta."

Hefðir þú átt að gera eitthvað öðruvísi þegar þú horfir til baka?

„Já alveg klárlega. Þegar ég hugsa til baka þá hefði ég átt að gera margt öðruvísi. Maður leggur samt ekki upp með að leikir fari í framlengingu en hefði ég vitað það þá hefði ég gefið Chaz og Dwayne meiri hvíld í leiknum en ég bara vissi ekki að þessi leikur færi í framlengingu."

Nú mætið þið Val í undanúrslitum. Hverjir eru möguleikar Njarðvíkur í þeirri seríu?

„Ég hef bara verið með alla mína einbeitingu á okkar leikjum og hef ekkert séð Val í seríunni gegn Hetti. Á morgun byrja ég að skoða Val en það vita allir hvað Valur getur. Það eru gríðarleg gæði þar og þeir vita nákvæmlega hvernig á að fara alla leið. Ég er fyrst og fremst að vera kominn í undanúrslit þriðja árið í röð og hugsanlega festa Njarðvík í sessi í topp fjórum."

Njarðvík ætlar alla leið í þessu móti?

„Já algjörlega. Núna þurfum við bara að fara skoða Val og finna einhverja veikleika á þeim og finna út hvað við þurfum að laga í okkar leik. Núna fögnum við til kl 23:00 í kvöld. Síðan förum við beint á koddann og undirbúum næstu seríu í fyrramálið," sagði Benedikt í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert