Móðirin sögð hafa játað að verða syni sínum að bana

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Móðir sem grunuð var um að hafa ráðið sex ára syni sínum bana á heimili þeirra við Nýbýlaveg í lok janúar og gert tilraun til að svipta eldri son sinn lífi, hefur játað sök. Ríkisútvarpið greinir frá.

Konan, sem er um fimmtugt, var annars vegar ákærð fyr­ir mann­dráp og stór­fellt brot í nánu sam­bandi, og hins veg­ar til­raun til mann­dráps og stór­fellt brot í nánu sam­bandi. Hefur hún sætt gæsluvarðhaldi síðan málið kom upp.

Í ákæru málsins kemur fram að konan hafi svipt son sinn lífi með að setja kodda yfir andlit hans og með báðum höndum þrýst koddanum yfir vit hans og þrýst á háls hans og efri hluta brjóstkassa hans og ekki linað þau tök fyrr en drengurinn var látinn. Lést hann af völdum köfnunar að því er fram kemur í ákærunni.

Þá er hún sögð hafa farið inn í svefnherbergi eldri drengsins þar sem hann lá sofandi á maganum og tekið fyrir vit hans með annarri hendi og í hnakka hans með hinni. Þrýsti hún andliti hans niður í rúmið þannig að hann gat ekki andað. Vaknaði drengurinn við þessa atlögu og gat losað sig úr taki móðurinnar.

Ákæra var gefin út í síðustu viku og þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Var þinghaldið lokað.

Rúv greinir frá því að konan hafi játað sök en hún beri við ósakhæfi á verknaðarstundu. 

Fyrir hönd eldri drengsins er farið fram á að móðirin greiði honum 10 milljónir í bætur, en auk þess fer faðir drengjanna fram á 8 milljónir í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert