Andleg sýn nátengd sköpunargáfunni

Jón Gnarr.
Jón Gnarr. mbl.is/Arnþór

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi segist aðhyllast húmanisma og segir andlega sýn sína vera nátengda sköpunargáfu sinni.

Verði hann kjörin forseta Íslands segist hann ekki munu lenda í vandræðum með að fylgja stjórnarskrá Íslands og sinna þeim embættisskyldum sem snúa að þjóðkirkjunni.

Í facebookfærslu sinni rekur Jón Gnarr hvernig trúmálum hans hefur verið hagað í gegnum lífið.

„Ég hef oft verið ósammála veraldlegum kirkjuyfirvöldum um ýmislegt. Til dæmis skoðanir er varða eignarétt kvenna yfir sínum eigin líkama, samkynhneigð og fleiri mál sem ég tel til almennra mannréttinda. Þetta gildir um þjóðkirkjuna en ekki síður kaþólsku kirkjuna,” segir hann.

„Á síðustu árum hef ég aðhyllst Húmanisma ekki síst vegna ástar minnar á manneskjunni og mannsandanum. En ég á trúna mína líka. Ég er andlega sinnaður og langar bara að eiga mér einfalda, íslenska alþýðutrú. Ég trúi á kærleikann sem býr í manneskjunni og trúi því að hann sé öllum kenndum æðri og muni að lokum sigrast á öllu öðru. Mín andlega sýn er nátengd sköpunargáfu minni því mér finnst hún sjaldnast frá mér komin heldur upplifi mig frekar sem verkfæri sem hún notast við,” bætir Jón Gnarr við.

Hann kveðst í dag ekki hafa sérstaka skoðun á trú eða lífsskoðunum annars fólks. Leitast hann við að sýna skoðunum þess sömu virðingu og hann biður það um að sýna honum og hans skoðunum.

„Verði ég kosinn forseti Íslands mun ég ekki eiga í neinum vandræðum með að fylgja stjórnarskrá Íslands og sinna þeim embættis skyldum er snúa að Þjóðkirkjunni og inna þær af hendi af virðingu, ábyrgð og auðmýkt,” bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert