„Ég veit ennþá ekkert hvað ég er að gera“

„Ég byrjaði bara sjálf að skemmta mér aðeins með djasshljóma. …
„Ég byrjaði bara sjálf að skemmta mér aðeins með djasshljóma. Ég veit ennþá ekkert hvað ég er að gera, ég er bara eitthvað að bulla. En þannig er djassinn hvort eð er.“ Eggert Jóhannesson

Rísandi stjarnan Laufey Lín Jónsdóttir er mikið á flakki um þessar mundir, enda í miðjum Evróputúr. Eftir vel heppnaða tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu í síðustu viku spilaði hún í tveimur borgum Írlands áður en haldið var til Íslands á nýjan leik, eða í Fríkirkjuna öllu heldur, þar sem hún spilaði á Iceland Airwaves á föstudag.  

Stoppið hér heima var stutt, en Laufey var komin til Manchester þegar blaðamaður sló á þráðinn til hennar, en hún spilar þar í dag.

„Þegar kemur að því að spila svona ein, í nokkurs konar popp[stíl], þá hef ég ekki gert það mikið hér heima,“ segir Laufey í samtali við mbl.is en á tónleikunum á föstudag, sem undirritaður sótti, skein einlægnin í gegn, enda nálægðin við áhorfendur mikil í Fríkirkjunni.

Laufey segir hér frá því þegar hún spilaði á sama …
Laufey segir hér frá því þegar hún spilaði á sama flygil kyrkjunnar þegar hún var í klassísku píanónámi. mbl.is/Ari Páll

Fannst ég vera nokkuð kúl

Laufey kveðst ánægð með giggin tvö hér heima þótt ólík hafi verið, en hún var ein á sviðinu í fyrrakvöld, ýmist vopnuð gítar eða sitjandi við flygilinn.

„Það er líka skemmtilegt að spila á Airwaves, eitthvað sem maður fylgdist alltaf með þegar maður var yngri, skemmtilegt að fá að taka þátt,“ bætir hún við en hún hafði orð á því á tónleikunum að hún hefði alltaf litið upp til tónlistarmannanna sem spiluðu á hátíðinni þegar hún var yngri.

„Kúl fólkið var að spila og kúl fólk að horfa. Ég fékk reyndar einu sinni að spila á selló með einum finnskum artista, mér fannst ég vera nokkuð kúl þá,“ segir hún og hlær.

Þétt var setið í Fríkirkjunni í gær.
Þétt var setið í Fríkirkjunni í gær. mbl.is/Ari Páll

Skemmtilegt að koma aftur og spila eigin lög

Laufey segist ánægð með að hafa fengið að spila í kirkju, og þá sér í lagi þessari kirkju, enda spilaði hún þar oft meðan hún var í klassísku píanónámi auk þess sem amma hennar er bæði skírð og fermd í Fríkirkjunni.

Laufey hlær.

„Henni fannst mjög spennandi að ég hafi verið að spila þar. Og ég náttúrulega ólst upp í klassískum píanóleik og maður spilaði mikið tónleika í kirkjum, ég spilaði oft í Fríkirkjunni. Skemmtilegt að koma aftur og spila mín eigin lög.“

„Ég held ég hafi gleymt að taka verðmiðann af kjólnum …
„Ég held ég hafi gleymt að taka verðmiðann af kjólnum mínum,“ sagði Laufey á tónleikunum og uppskar mikinn hlátur áhorfenda. mbl.is/Ari Páll

Byrjaði tónlistarferilinn fjögurra ára

Laufey byrjaði tónlistarferilinn aðeins fjögurra ára gömul í píanónámi hjá Hönnu Valdísi í Suzukitónlistarskóla Reykjavíkur ásamt tvíburasystur sinni, Júníu.

„Síðan var ég í einkatímum hjá Snorra Sigfúsi tónskáldi á píanó og síðan Peter Mattei í alveg mörg ár í Tónlistarskólanum í Reykjavík.“ Átta ára byrjaði Laufey að æfa á selló og var á báðum hljóðfærum í um sex ár áður en sellóið tók alveg yfir, þar sem Sigurgeir Agnarsson kenndi henni í mörg ár.

„Og mamma, að sjálfsögðu,“ bætir Laufey við.

Síðar fór djassinn að heilla hina ungu tónlistarkonu, en mörg laga Laufeyjar eru innblásin af amerísku söngbókinni. „Ég byrjaði bara sjálf að skemmta mér aðeins með djasshljóma. Ég veit ennþá ekkert hvað ég er að gera, ég er bara eitthvað að bulla. En þannig er djassinn hvort eð er.“

Á unglingsárum fór Laufey að syngja og stundaði hún djasssöngnám hjá Gullu Ólafs í tónlistarskóla FÍH í eitt ár áður en förinni var heitið í Berklee í Boston. Síðan eru liðin fjögur ár og margt vatn runnið til sjávar síðan.

Frá tónleikunum.
Frá tónleikunum. mbl.is/Ari Páll

Fyrsta jólalagið eftir viku

Mörg járn eru í eldinum hjá Laufey þessa dagana enda á tónlistarferðalagi. Á föstudaginn næsta gefur hún síðan út sitt fyrsta jólalag.

„Ég er extra-spennt fyrir þessu, ég spilaði mikið á selló í því og við tókum upp barnakór. Allt litlar stelpur. Þær komu inn og ég fékk að syngja með. Þær eru það sætasta í heimi,“ segir hún og bætir við að lagið minni á hina klassísku jólaplötu „A Charlie Brown Christmas“.

En hvað er uppáhalds jólalagið þitt?

„Ætli það sé ekki bara þetta lag,“ segir Laufey að lokum og hlær enn á ný.

View this post on Instagram

A post shared by laufey (@laufey)

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson