„Þetta eru siðblindir einstaklingar sem svífast einskis“

Gísli Örn Garðarsson leikstýrir tveimur þáttum í þriðju seríu Exit …
Gísli Örn Garðarsson leikstýrir tveimur þáttum í þriðju seríu Exit 3. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Leikarinn og leikstjórinn Gísli Örn Garðarsson segir leikarana í norsku þáttaröðinni Exit vera ekkert eins og mennina sem þeir leika á skjánum. Sem betur fer því persónunum lýsir hann sem siðblindum einstaklingum sem svífast einskis. Leikarnir séu hins vegar herramenn fram í fingurgóma. 

Gísli Örn leikstýrir tveimur þáttum í þriðju og síðustu þáttaröð Exit, þáttum fjögur og fimm, sem koma inn á spilara Rúv í dag, auk þess sjötta. 

„Øystein Karlsen, sem er höfundur og aðalleikstjóri þáttanna bað mig um að létta aðeins á sér, með því að stíga inn og taka tvo þætti. Ég hef leikið í seríu sem hann bjó til sem heitir „En Natt“, svo við þekkjumst mjög vel. Þegar hann var að vinna að fyrstu seríu Exit og við að Verbúðinni, vorum við að skiptast á athugasemdum um handritin og þróunina, svo við vorum þannig nokkuð samstíga við gerð þáttanna og ég hef þess vegna fylgst vel með þeim frá upphafi,“ segir Gísli. 

Hann segir Øystein hafa sýnt sér mikið traust og helst ekki hafa viljað vita af því sem hann var að gera með þættina. Gísli segist bera mikla virðingu fyrir þáttunum og að þættirnir séu barnið hans Øysteins. Hann hafi því reynt að fylgja stemningunni eftir fremsta megni en á sama tíma gera þættina tvo eftir eigin nefi. 

„Þetta eru gríðarlega margir þræðir sem þarf að halda utan um þegar maður stígur inn í leikstjórnarverkefni eins og þetta. Þannig að ég gerði þetta á endanum alfarið eftir eigin nefi og auðvitað alltaf með leikgleðina að vopni. Það er mikilvægt að missa ekki sjónar á henni, þó maður sé að stíga inn í verkefni sem einhver annar hefur skapað. En Øystein er sjálfur einstaklega lagin við að skapa góða stemningu í kringum sig og verkefnin sem hann vinnur. Þannig að ég reyndi að elta þann tón,“ segir Gísli. 

Tobias Santelmann, Jon Øigarden, Simon J. Berger og Pål Sverre …
Tobias Santelmann, Jon Øigarden, Simon J. Berger og Pål Sverre Hagen fara með aðalhlutverkin í Exit. mbl.is/skjáskot Instagram

Fjölmennar senur og krefjandi tökur

Þættirnir sem Gísli leikstýrir gerast í útlöndum og eru teknir upp á Spáni. Í báðum þeirra eru svo fjölmennar tökur sem geta verið krefjandi. 

„Því tíminn vinnur sjaldnast með manni og svo þvældist tungumálið oft fyrir þegar við vorum í tökum á Spáni. Og eðli máli samkvæmt er mikið um “nándarsenur” og það er mikilvægt að mæta þeim af fagmennsku og virðingu gagnvart þeim sem eru þátttakendur í þeim. Heildarupplifunin af þessu öllu var eins og að stíga inn í ævintýri. Sjúkt ævintýri kannski. En ævintýri engu að síður,“ segir Gísli. 

Vinsælir í heimalandinu

Norska ríkissjónvarpið, NRK, framleiðir þættina og voru fyrstu tvær seríurnar þær vinsælustu þegar þær komu út. Sömu sögu er að segja um þriðju seríuna, yfir milljón hefur horft á hvern þátt í nýju seríunni.

Þættirnir eru byggðir á sönnum sögum af mönnum í norska viðskiptalífinu. Hafa þeir vakið athygli fyrir glæfraleg viðskipti mannanna, vændiskaup og fíkniefni. Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að þættirnir sýni á einhvern hátt upphafningu fíkniefnaneyslu eða vændiskaupa segir Gísli nei. 

Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda í Noregi sem og utan …
Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda í Noregi sem og utan Noregs.

„En þegar það kemur að fíkniefnaneyslunni og viðhorfi þessarra manna til kvenna og fólks almennt í kringum sig, þá skilar það sér vonandi ekki í upphafningu. Þetta eru siðblindir einstaklingar sem svífast einskis,“ segir Gísli. 

„Þetta er oft og tíðum mjög nálægt raunveruleikanum – eða bókstaflegur raunveruleiki, svo markmiðið er að sýna okkur þennan tiltekna heim og það sem býr að baki ákvarðana sem þessir menn taka og hvernig þeir framkvæma viðskiptaflétturnar sínar. Fléttur sem hafa áhrif á venjulegt fólk og stundum heilt samfélag,“ segir Gísli. 

Hann segir hluta vinsældanna í Noregi skrifast á að sögurnar séu einmitt sannar. Norðmenn hafi ekki trúað að þessir menn væru til í þeirra eigin samfélagið sem hefðu jafn víðtæk áhrif á viðskiptaheiminn og raun ber vitni. „Þetta er vissulega mjög þröngur hópur, en áhrifin ná einhvernvegin til flestra í Noregi,“ segir Gísli. 

Stóra orgíusenan gleymist ekki

Gísli segir leikarana vera algjöra andstæðu við mennina sem þeir leika á skjánum. Með hlutverk þeirra Adams, Henrik, William og Jeppe fara þeir Simon J. Berger, Tobias Santelmann, Pål Sverre Hagen og Jon Øigarden. 

„Þeir mæta mjög undirbúnir til leiks, enda oft mikið um texta og mikill hraði. Þeir eru allir frábærir leikarar og yndislegar manneskjur. Það var mjög gefandi að vinna með þeim og innblástur fyrir mig sjálfan sem leikari,“ segir Gísli Örn. 

Spurður hvort eitthvað hafi staðið upp úr við gerð þáttanna segir Gísli: „Stóra orgíusenan í þætti 5 mun eflaust seint renna mér úr minni. Ég hafði ekki séð fyrir mér að ég myndi leikstýra þannig senu í lífinu. Það var í besta falli mjög sérstakt.“ 

Styttri dagar í Noregi

Gísli segist ekki bara hafa fengið mikinn innblástur sem leikari við þættina. Það vakti athygli hans að þrátt fyrir að Norðmenn séu með styttri vinnudaga en við heima á Íslandi þá ná þeir að gera margt, jafnvel meira en næst á löngum dögum hér. 

„Sem er ákveðin vísbending um að langir vinnudagar skili ekki endilega bestum árangri. Auk þess er NRK að fjárfesta af fullri alvöru í sjónvarpsþáttagerð. Þeir fjármagna sínar eigin sjónvarpsseríur og það er auðvitað mjög frábrugðið raunveruleikanum á Íslandi. Þegar eitthvað gengur vel, getur NRK gefið grænt ljós á næstu seríu þannig að hún fari strax í vinnslu,“ segir Gísli og bendir á að hér heima séu sjónvarpsstöðvarnar og framleiðendur háðir fjármagni annars staðar frá og það geri allt þyngra í vöfum. 

„Við höfum orðið vitni að frábærum sjónvarpsseríum hérna heima, sem hafa átt að fara í framhaldsseríu, en andast í fjármögnunarferli. Það er mikil synd. En auðvitað erum við fámenn þjóð og það er ekkert sjálfgefið í þessu. En NRK býr við þennan lúxsus að vera engum háðir. En að öðru leiti er framleiðslan og vinnan alveg eins, enda er bransinn hér á heimsmælikvarða þegar best lætur. Alveg eins og í Noregi. Og þegar allir sigla í sömu átt, sem er klárlega stemningin í Exit þáttunum, hefst þetta allt á sameiginlegri vinnugleði,“ segir Gísli. 

„Draumajobb leikarans“

Það er nóg að gera hjá Gísla Erni þessa dagana. Ekki var hann bara að taka á móti einum sautján tilnefningum til Eddu-verðlauna fyrir Verbúðina heldur er hann líka á fullu í Þjóðleikhúsinu. 

Núna er hann að leika í leikritinu Ex á móti Nínu Dögg Filippusdóttur og Kristínu Þóru Haraldsdóttur. 

„Þetta er frábært verk og við höfum verið að leika fyrir fullu húsi frá frumsýningu. Það er hrikalega gaman að leika á móti þeim og ég hlakka til hverrar sýningar. Þetta er svona draumadjobb leikarans,“ segir Gísli.

Gísli Örn leikur í leikritinu EX í Þjóðleikhúsinu um þessar …
Gísli Örn leikur í leikritinu EX í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir, ásamt Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Nínu Dögg Filippusdóttur. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson