Hét því að nota ekki Twitter

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Sjö mánuðum áður en hann náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna hét Donald Trump því á kosningafundi í Rhode Island að hann myndi ekki nota samfélagsmiðilinn Twitter ef hann sigraði í forsetakosningunum. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það væri ekki „forsetalegt“. Trump hafði þá óspart notað Twitter í kosningabaráttunni og gerir enn.

Þetta er rifjað upp á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar segir að Trump hafi ekki aðeins haldið áfram að nota Twitter heldur af miklum móð. Þannig hafi hann sent frá sér 2.608 slíkar færslur undanfarið ár. Sumar hversdaglegar en aðrar mjög umdeildar. Trump er þeirrar skoðunar í dag að það sé nútímalegt fyrir forseta að nota Twitter.

Fréttamenn BBC fóru í gegnum allar þær Twitter-færslur sem Trump hefur ritað síðan hann tók við sem forseti Bandaríkjanna fyrir ári. Stór hluti færslanna, eða um þriðjungur, er ritaður að morgni til samkvæmt staðartíma eða þegar uppáhaldssjónvarpsþáttur Trumps er á dagskrá eða á milli 6:00 og 9:00. En hverja hefur hann gagnrýnt og hverja lofað?

Trump hefur einkum beint spjótum sínum að fjölmiðlum og sakað ýmsa í þeim geira um að flytja falsfréttir. Þá hefur hann reglulega gagnrýnt forvera sinn á forsetastóli, Barack Obama, Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóra Kaliforníu og kvikmyndaleikara, Sadiq Khan, borgarstjóra London, og enn fremur rapparann Snoop Dogg.

Forsetinn hefur gagnrýnt talsvert Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, unanfarna mánuði en athygli fréttamanna BBC vakti að fyrstu sjö mánuðina í embætti ræddi Trump aðeins einu sinni um Norður-Kóreu á Twitter þar sem hann hrósaði einræðisherranum fyrir að hafa ákveðið að fresta ákvörðun um að skjóta kjarnorkuflaug á eyjuna Guam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert