Fór á skotsvæði skömmu fyrir árásina

Nasim Aghdam lýsti sjálfri sér sem íþróttamanni, listamanni og sagðist …
Nasim Aghdam lýsti sjálfri sér sem íþróttamanni, listamanni og sagðist vera vegan.

Nasim Aghdam sem skaut og særði þrjá í höfuðstöðvum Youtube í Kaliforníu í gærkvöldi áður en hún svipti sig lífi, fór á skotæfingasvæði aðeins nokkrum klukkutímum fyrir skotárásina. BBC greinir frá þessu og hefur þær upplýsingar eftir lögreglunni í San Bruno í Kaliforníu.

Ed Barberini, lögreglustjóri í San Bruno, sagði jafnframt að hálf sjálfvirk skammbyssa sem notuð var við verknaðinn hefði verið í eigu Aghdam. Byssan var löglega skráð á hana.

Lögregla telur ástæðu árásinnar vera að Aghdam hafi verið ósátt við stefnu Youtube, en hún hafði birt myndskeið á þeim vettvangi um dýravernd. Aghdam mun hafa sakað Youtube um ritskoðun og að hafa haft af henni tekjur. Öllum myndskeiðum hennar hefur nú verið eytt.

Þrír voru fluttir á sjúkrahús með skotsár eftir árásina og er einn karlmaður á fertugsaldri enn í lífshættu. Hinir tveir fengu að fara heim að aðhlynningu lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert