Rússar beittu neitunarvaldi í tólfta sinn

Sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, Vasily Nebenzya, greiðir atkvæði með …
Sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, Vasily Nebenzya, greiðir atkvæði með tillögu Rússa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í kvöld. AFP

Rússar beittu neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í kvöld þegar aðildarríkin 15 greiddu atkvæði um tillögu Bandaríkjanna um að senda óháða rannsóknarnefnd til Douma til að meta hvort um efnavopnaárás hafi verið að ræða.

Að minnsta kosti 40 létust og yfir hundrað særðust þegar árás­ var gerð á borg­ina Douma í aust­ur­hluta Ghouta-héraðs í Sýrlandi á laugardag. Í héraðinu hef­ur stjórn­ar­her­inn með aðstoð Rússa að mestu náð völd­um en Douma var að stór­um hluta enn á valdi upp­reisn­ar­manna.

Þetta var í tólfta sinn sem Rússar beita neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu til að koma í veg fyrir aðgerðir sem tengjast bandamönnum þeirra í Sýrlandi.

Tillaga Rússa var sömuleiðis tekin fyrir á fundi öryggisráðsins í kvöld en í henni fólst að framkvæmt yrði rannsókn um hvað er hæft í fréttum um efnavopnaárásina. Bandaríkin nýttu neitunarvald sitt í atkvæðagreiðslunni eins og við mátti búast.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að von væri á hörðum viðbrögðum frá Bandaríkjunum vegna árásarinnar og að stjórnvöld íhugi að grípa til hernaðaraðgerða í Sýrlandi.  

Greidd voru atkvæði um tvær tillögur tengdar efnavopnaárásinni í Douma …
Greidd voru atkvæði um tvær tillögur tengdar efnavopnaárásinni í Douma í Sýrlandi um síðustu helgi á fundi öryggisráðsins í kvöld. Báðar voru felldar þar sem neitunarvaldi var beitt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert