Jórdanar sagðir hafa fellt fíkniefnabarón

Maður hjólar fram hjá skilti með mynd af Ibrahim Raisi …
Maður hjólar fram hjá skilti með mynd af Ibrahim Raisi Íransforseta og Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í höfuðborginni Damaskus í síðustu viku. AFP/Louai Beshara

Fíkniefnakóngurinn Marai al-Ramthan, kona hans og sex börn eru sögð hafa farist í loftárás jórdanska flughersins á Sweida-héraðið í Suður-Sýrlandi í dag. Frá þessu greina mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights en jórdönsk stjórnvöld hafa hvorki viljað staðfesta tíðindin né vísa þeim á bug.

„Ramthan er talinn einn stórtækasti sölumaður fíkniefna í landshlutanum og um leið einn stærstu innflutningsaðila,“ segir í tilkynningu samtakanna.

„Þegar við aðhöfumst eitthvað í þeim tilgangi að tryggja öryggi þjóðar okkar [...] greinum við frá því á viðeigandi tíma,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Ayman Safadi, utanríkisráðherra Jórdans og ræddi í framhaldinu þá samfélagslegu ógn er af fíkniefnum stafaði.

Óhægt um vik án Ramthans

Rannsókn AFP í nóvember leiddi í ljós að Sýrland væri orðið eiturlyfjaríki (e. narco state) með eiturlyfjaiðnaði sem velti tíu milljörðum bandaríkjadala á ári og gerði öll önnur viðskipti í landinu smávægileg í samanburði.

Aðgerðasinni í Sweida-héraðinu, sem þekkir til fíkniefnasölunnar þar, tjáir AFP að reikna megi með að skarð sé höggvið í fíkniefnaflutninga til Sweida með loftárás Jórdana. „Enginn gæti smyglað neinu yfir landamærin án þekkingar Ramthans,“ segir sá og bætir því við að nokkrir þekktir fíkniefnasalar á svæðinu hafi flúið heimili sín í kjölfar loftárásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert