Teymið væntanlegt til Douma

Svona lítur Douma út eftir stöðugar loftárásir vikum saman. Myndin …
Svona lítur Douma út eftir stöðugar loftárásir vikum saman. Myndin er tekin í gær. Þangað eru nú eftirlitsmenn OPCW væntanlegir í dag. AFP

Sérfræðingar alþjóðlegrar stofnunar gegn notkun efnavopna, OPCW, eru væntanlegir til Douma í Sýrlandi á morgun til að rannsaka meinta efnavopnaárás í borginni í síðustu viku. Þetta segja rússnesk stjórnvöld en þau bandarísku hafa gefið í skyn að Rússar hafi átt við vettvang árásarinnar og tafið för eftirlitsmannanna. Þessum ásökunum hafna Rússar. 

Aðfaranótt laugardags gerðu Frakkar, Bandaríkjamenn og Bretar loftárásir við Damaskus á skotmörk sem talin eru tengjast framleiðslu eða geymslu efnavopna Sýrlandshers. Engar upplýsingar hafa borist um mannfall í árásunum. 

Segja árás hafa verið gerða í Homs

Ríkissjónvarpsstöð í Sýrlandi segir að herinn hafi náð að skjóta niður flugskeyti yfir Homs-héraði í nótt en þar var skotmarkið herstöð. Ekki hefur verið staðfest hver bar ábyrgð á þeirri loftárás. Bandaríkjamenn hafa sagt að hvorki þeir né bandamenn þeirra hafi verið í aðgerðum á því svæði.

Höfuðstöðvar OPCW eru í Haag. Skammstöfunin stendur fyrir Organisation for …
Höfuðstöðvar OPCW eru í Haag. Skammstöfunin stendur fyrir Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons. AFP

Efnavopnaárásin var gerð í Douma 7. apríl. Þá höfðu árásir Rússa og stjórnarhersins gegn uppreisnarmönnum í borginni sem og öllum austurhluta Ghouta-héraðs staðið yfir vikum saman. Samið hafði verið við uppreisnarmennina um brottflutning frá héraðinu og til Idlib-héraðs. Flestir höfðu þegar gengist við því og voru farnir. Í Douma var þó hópur uppreisnarmanna enn til staðar. Ekki hefur fengist formlega staðfest af þar til bærum yfirvöldum að efnavopnaárás hafi verið gerð en sjónarvottar á vettvangi sem og hjálparsamtökin Hvítu hjálmarnir hafa lýst því sem gerðist og segja augljóst að efnavopnum hafi veirð beitt. Talið er að fjörutíu manns hafi fallið í árásinni. 

Forstjóri OPCW, Ahmet Uzumcu, segir að teymi níu eftirlitsmanna stofnunarinnar sé komið til höfuðborgarinnar Damaskus en hafi ekki enn komist til Douma. 

Sýrlensk og rússnesk stjórnvöld segja að ganga hafi þurft frá „öryggismálum“ áður en sendiför teymisins yrði áfram haldið til borgarinnar. 

Igor Kirillov, yfirmaður geisla- og efnavarnarnefndar Rússlands, sagði við blaðamenn að vegirnir til Douma væru enn hættulegir og þá yrði að hreinsa af jarðsprengjum áður en hægt væri að koma teyminu áleiðis. „Á miðvikudag eigum við von á sérfræðingum OPCW,“ sagði hann á blaðamannafundi í rússneska sendiráðinu í Haag í Hollandi en þar í borg eru höfuðstöðvar OPCW.

Fólk kom saman við þinghúsið í London í gær til …
Fólk kom saman við þinghúsið í London í gær til að mótmæla loftárás Bandaríkjamanna, Breta og Frakka í Sýrlandi á laugardag. AFP

Fulltrúi Bandaríkjanna hjá OPCW, Ken Ward, segir hins vegar að Rússar hafi þegar heimsótt vettvang hinnar meintu árásar og gætu hafa átt við hann.

Stjórnvöld í Rússlandi hafa hafnað þessum ásökunum. Þau saka hins vegar Bandaríkjamenn, Frakka og Breta um að hafa staðið í vegi fyrir rannsókn stofnunarinnar með því að hefja loftárásir.

Árás ríkjanna þriggja á laugardag er sú umfangsmesta sem vestræn ríki hafa farið í í Sýrlandi frá því að stríðið braust þar út fyrir sjö árum. 

Eftirlitsmenn OPCW hafa það hlutverk að rannsaka ummerki eftir efnavopnaárás og staðfesta hvort að slík árás hafi átt sér stað. Þá munu þeir safna margvíslegum gögnum til gerðar skýrslu um árásina. För þeirra er ekki hættulaus og hefur yfirmaður stofnunarinnar sagt teymið skipað níu áræðnum einstaklingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert