Leyndar færslur skúffufyrirtækis

Donald Trump og leikkonan Stephanie Clifford/Stormy Daniels.
Donald Trump og leikkonan Stephanie Clifford/Stormy Daniels. AFP

Skúffufyrirtækið sem lögmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, Michael D. Cohen, notaði til þess að greiða fyrir þögn klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels, fékk greidda rúmlega 1 milljón Bandaríkjadala frá bandarísku fyrirtæki sem tengist rússneskum ólígarka og fleiri fyrirtækjum áður en Trump tók við sem forseti. Þetta kemur fram í frétt New York Times. 

Fjármálaupplýsingar sem blaðamenn New York Times hafa séð sýna að Cohen, sem er persónulegur lögmaður Trumps, hafi notað skúffufyrirtækið Essential Consultants L.L.C., fyrir viðskipti sem ekki hafa farið hátt opinberlega.

Peningafærslur upp á að minnsta kosti 4,4 milljónir Bandaríkjadala, 453 milljónir króna, fóru  um Essential Consultants skömmu áður en Trump var kosinn forseti og þangað til í janúar í ár.

Meðal peningahreyfinga, sem ekki hefur verið upplýst um opinberlega, voru greiðslur upp á um 500 þúsund Bandaríkjadali frá Columbus Nova, sem er fjárfestingafélag í New York, í fyrra. Stærsti viðskiptavinur þess er fyrirtæki undir stjórn rússneska ólígarkans Viktor Vekselberg.

Lögmaður Columbus Nova segir í yfirlýsingu til NYT í gær að peningarnir væru greiðsla fyrir ráðgjöf sem tengist Vekselberg ekki á nokkurn hátt. Aðrar færslur eru meðal annars hundruð þúsunda dala greiðsla frá fyrirtækjum á lista Fortune 500, áður en Trump tók við embætti, sem og smærri greiðslur sem Essential Consultants greiddi fyrir munaðarvarning eins og Mercedes-Benz og til einkaklúbba.

Upplýsingar um færslurnar birtust fyrst á Twitter hjá Michael Avenatti, lögmanni Stor­my Daniels, eða Stephanie Clifford eins og hún heit­ir réttu nafni, í gær. Clifford fékk greidda 130 þúsund dali fyrir að þegja um samband sitt við Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert