Salerni bjarga mannslífum

AFP

Indverska bóndakonan Kokila Damor var alltaf spennt fyrir því að heimsækja heilsugæsluna því þá komst hún á klósett. En í dag hefur hún litla ástæðu til þess að leita þangað enda er hún stoltur salerniseigandi. Þetta er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bæta hreinlæti í Rajasthan.

„Að eiga klósett hefur breytt lífi mínu. Ég get sofið lengur og betur í stað þess að þurfa að fara út klukkan fjögur að nóttu,“ segir Damor, sem er 34 ára þriggja barna móðir. Hún segir að áður hafi hún alltaf verið að finna afsökun fyrir því að heimsækja heilsugæsluna. „Því mér fannst frábært að nota almennilegt klósett með hurð, vatni og ljósum,“ segir hún. 

Áður voru haustin erfiður tími því þá gat gengið erfiðlega að finna stað til þess að gera þarfir sínar. Nauðsynlegt var að komast í skjól undir tré þar sem regnið náði ekki til hennar því það er erfitt að halda á regnhlíf á sama tíma og gengið er örna sinna. Svo ekki sé talað um óttann við að einhver kæmi að henni.

Damor býr í þorpinu Bhuwalia og er það eitt þeirra þorpa sem hefur fengið góða úrlausn sinna mála þegar kemur að hreinlætismálum en eitt af kosningaloforðum forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, árið 2014 var að gera miklar úrbætur í hreinlætismálum á landsbyggðinni.

Lélegt hreinlæti og mengað vatn drepur 1,4 milljónir barna á hverju ári

Öll hús í Bhuwalia geta nú státað af klósetti en þau eru þannig úr garði gerð að ekki þarf að tengja þau sérstöku holræsakerfi og vatnsnotkun salernanna er í lágmarki. Slíkt er mjög mikilvægt á svæði þar sem þurrkar eru tíðir.

Talið er að sjúkdómar sem rekja má til lélegs hreinlætis og mengaðs vatn drepi 1,4 milljónir barna í heiminum ár hvert. Það er hærri tala en fjöldi barna sem deyja samanlagt úr sjúkdómum eins og malaríu, mislingum og alnæmi.

Samkvæmt áætlun Modi fær hvert heimili 15 þúsund rúpíur til þess að útbúa salerni. Þetta skiptir miklu máli fyrir fátæk heimili í landinu en heildartekjur fjölskyldu Damor eru undir 10 þúsund rúpíum á mánuði. Stjórnvöld segja að með þessu hafi verið komið upp rúmlega 86 milljónum salerna um allt land frá því október 2014. Alls eru Indverjar 1,25 milljarðar talsins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert