Negldu fyrir alla glugga og flúðu

Guðrún Hulda ásamt börnum sínum, en hún býr ásamt syni …
Guðrún Hulda ásamt börnum sínum, en hún býr ásamt syni sínum í Panama City í Flórída. Ljósmynd/Aðsend

Fellibylurinn Mikael gengur nú yfir vesturströnd Flórída sem fjórða stigs fellibylur og er hann sá öfl­ug­asti sem skollið hef­ur á norðvest­ur­hluta Flórída í heila öld. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Flórída, Georgíu og Alabama.

Ríkisstjóri Flórída fyrirskipaði yfir 370.000 manns að flýja heimili sín þar sem óttast er að Mikael geti ollið gríðarlegri eyðileggingu. Búist er við að meðalvindhraði nái 70 metrum á sekúndu og að flóðbylgjur geti orðið allt að 3,7 metrar.

Guðrún Hulda Björnsdóttir Robertson er búsett í Panama City í Flórída, en fellibylurinn kom að landi um 32 kílómetra suðaustur af borginni fyrir skömmu. Guðrún Hulda og fjölskylda hlýddu fyrirmælum ríkisstjórans og yfirgáfu heimili sitt í gærkvöldi.

Guðrún Hulda boraði og negldi fyrir alla glugga og dyr …
Guðrún Hulda boraði og negldi fyrir alla glugga og dyr á heimilinu áður en hún yfirgaf það vegna fellibylsins Mikaels. Ljósmynd/Aðsend

„Um leið og hann varð þriðja stigs fellibylur ákváðum að yfirgefa heimilið. Við lokuðum fyrir alla hlera klukkan hálfellefu í gærkvöldi og fórum svo,“ segir hún í samtali við mbl.is. Guðrún Hulda gaf sér góðan tíma í að negla viðarplötur fyrir alla glugga og dyr á heimilinu áður en hún pakkaði því nauðsynlegasta og hélt áleiðis til systur sinnar í Atlanta ásamt syni sínum og heimilishundinum. Dóttir Guðrúnar Huldu er í háskólanámi í öðru ríki og er því örugg.

Guðrún Hulda gekk tryggilega frá öllu áður en hún yfirgaf …
Guðrún Hulda gekk tryggilega frá öllu áður en hún yfirgaf heimilið. Ljósmynd/Aðsend

Missti allt í fellibylnum Katrínu árið 2005

Guðrún Hulda býr miðsvæðis í Panama City en gatan hennar er ekki á skilgreindu flóðasvæði. Hún ákvað samt sem áður að leita á öruggari slóðir þar sem hún er reynslunni ríkari eftir að hafa upplifað fellibylinn Katrínu árið 2005, þá nýflutt til Bandaríkjanna.

„Þá var ég nýflutt til Missisippi, ólétt af syni mínum og við misstum allt innbúið okkar í fellibylnum,“ segir Guðrún Hulda, sem bjó með þáverandi eiginmanni sínum á þeim tíma.

Felli­byl­ur­inn kostaði 1.800 manns lífið í Louisi­ana, Mississippi, Flórída og Ala­bama og var felli­byl­ur­inn sá skaðleg­asti sem hef­ur riðið yfir Banda­rík­in síðan 1928 og sá þriðji ban­væn­asti síðan 1900. Um 80 pró­sent af New Or­le­ans fóru und­ir vatn eft­ir mik­il flóð. Guðrún Hulda fékk ekki að snúa aftur til heimilisins fyrr en mánuði seinna. Hún býst ekki við því að Mikael muni valda jafnmiklum skaða og segir að fólk taki fregnunum með ákveðinni ró þó að flestir séu vel undirbúnir.

„Walmart lokaði klukkan þrjú í gær og allar matarbúðir sömuleiðis. Það var líka allt að klárast, matvörur sem ekki þarf að geyma í ísskáp, batterí og vasaljós seldust upp,“ segir hún.

Fellibylurinn Mikael hefur náð að landi skammt fyrir utan Panama …
Fellibylurinn Mikael hefur náð að landi skammt fyrir utan Panama City í Flórída. AFP

Getur vonandi snúið heim á föstudag

Guðrún Hulda býst við að snúa aftur heim á föstudag, en það fer eftir því hversu mikill skaðinn verður. „Ég er búin að vera í sambandi við nágranna okkar í næsta húsi sem ákvað að vera um kyrrt og hann sagði mér að allar girðingar hjá okkur eru foknar og þakplötur fljúgi um allt,“ segir hún. Einnig er símasamband víða rofið og rafmagnslaust er í stórum hluta borgarinnar.

Guðrún Hulda segir að undibúningur vegna fellibylja sé að verða hluti af hennar daglega lífi og því þurfi hún einfaldlega að venjast. „Þetta á eftir að færast í aukana.“ Hún segir að það sem mestu máli skipti er að tryggja öryggi sitt og barnanna. „Maður lærði það af fyrsta storminum að það er hægt að kaupa allt nýtt.“

Guðrún Hulda er ýmsu vön þegar kemur að fellibyljum en …
Guðrún Hulda er ýmsu vön þegar kemur að fellibyljum en hún missti nánast allt sitt innbú í fellibylnum Katrínu árið 2005. Ljósmynd/Aðsend


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka