Segir stjórnartíð Maduro senn á enda

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna kveðst viss um að stjórnartími Nicolas Maduro, forseta Venesúela, renni fljótlega sitt skeið. 

Í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í dag, degi eftir blóðug átök vegna tilraunar stjórnarandstöðu landsins við að koma nauðsynjavörum yfir landamæri Venesúela, sagði Pompeo: „Það er erfitt að spá um framtíðina, og það er erfitt að spá fyrir um nákvæmar dagsetningar,“ og bætti við: „Ég er viss um að íbúar Venesúela tryggi að stjórnartíð Maduro sé liðin.“

Til átaka kom á landamærum Venesúela og Kólumbíu í gær þar sem landamæraverðir og her landsins, hliðhollir Maduro, skutu gúmmískotum og táragasi að aðgerðasinnum sem reyndu að greiða för mannúðaraðstoðar yfir til landsins.

Á fundi í höfuðborg Venesúela, Caracas, hét Maduro því að beygja sig aldrei í duftið og sleit diplómatískum tengslum ríkisins við nágranna sinn, Kólumbíu. Gaf hann kólumbískum erindrekum sólarhring til að yfirgefa landið.

Pompeo sagði við CNN að her Venesúela þyrfti nú að snúa sér að því að vernda borgara sína fyrir hörmungum, verði það raunin eigi góðir hlutir eftir að gerast. Sagði hann jafnframt Bandaríkin standa keik í því verkefni sínu að aðstoða stjórnarandstöðuna í landinu við að koma nauðsynjavörum yfir landamærin til Venesúela og tryggja venesúelsku þjóðinni lýðræðislegt stjórnarfar sem þjóðin eigi svo skilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert