Þrír þaulvanir fjallgöngumenn taldir af

Talið er að Bandaríkjamaðurinn Jess Roskelley og Austurríkismennirnir David Lama …
Talið er að Bandaríkjamaðurinn Jess Roskelley og Austurríkismennirnir David Lama og Hansbjörg Auer hafi orðið undir snjóflóði við Howser-tind í Alberta-fylki í Kanada í vikunni. Voru þeir þrautreyndir fjallgöngumenn og á lista North Face yfir alþjóðlega íþróttamenn sem fyrirtækið styrkir. Þeirra er minnst á heimasíðu North Face. Skjáskot/Heimasíða North Face

Þrír þaulvanir atvinnu-fjallgöngumenn eru taldir af en þeirra hefur verið saknað frá því að snjóflóð féll í Howse-tindi í Klettafjöllunum í Alberta-fylki í Kanada á þriðjudag.

Í tilkynningu frá Þjóðgarðsstofnun Kanada kemur fram að þremenningarnir, hinn bandaríski Jess Roskelley og Austurríkismennirnir Hansbjörg Auer og David Lama, hafi ætlað sér að klífa tindinn en ekki látið vita af sér samkvæmt ferðaáætlun. Síðast var vitað um ferðir þeirra í Banff-þjóðgarðinum.

Á miðvikudag var gerð leit að þeim úr lofti og í gær fundust ummerki um nokkur snjóflóð á því svæði sem mennirnir hugðust ganga. Þá fannst einnig ýmis búnaður, svo sem klifurbúnaður, sem talið er að hafi verið í eigu mannanna. Hlé hefur verið gert á leitinni af öryggisástæðum, þar sem slæmt veður er á svæðinu og snjóflóðahætta sömuleiðis.

Frá Banff-þjóðgarðinum, sem er elsti þjóðgarður Kanada, í Klettafjöllunum í …
Frá Banff-þjóðgarðinum, sem er elsti þjóðgarður Kanada, í Klettafjöllunum í Alberta. Ljósmynd/Wikipedia

Mennirnir voru á styrk frá North Face, fyrirtæki sem hannar og framleiðir útivistarfatnað, og voru í hópi alþjóðlegra íþróttamanna sem fyrirtækið styrkir. North Face minnist fjallamannanna á heimasíðu sinni og í yfirlýsingu frá North Face segir að fyrirtækið muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að styðja við fjölskyldur þremenninganna og fjallgöngusamfélagið.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert