SAS aflýsir 1.213 flugferðum

SAS tapaði því sem nemur um 6 milljörðum íslenskra króna …
SAS tapaði því sem nemur um 6 milljörðum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi 2019. JOHAN NILSSON

Norræna flugfélagið SAS aflýsti í dag 1.213 flugferðum sem voru áætlaðar á mánudag og þriðjudag vegna yfirstandandi verkfalls flugmanna. The Local greinir frá þessu.

Alls hefur 2.802 flugferðum verið aflýst síðan á föstudag. Aflýsingarnar eru afleiðing verkfalls flugmanna í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Áætlað er að 110,000 farþegar muni verða fyrir óþægindum af völdum aflýsinganna á mánudag og þriðjudag en í heildina hafa aflýsingarnar snert 279.334 manns.  

„Okkur þykir virkilega leitt að farþegar okkar verði fyrir áhrifum af yfirstandandi verkfalli,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu. Þar segir að farþegar sem eigi bókaðar ferðir með flugfélaginu til og með fimmta maí geti breytt eða hætt við ferðir sínar með engum tilheyrandi kostnaði.

Fyrr í dag kom fram að SAS hyggist hafna skaðabótakröfum farþega sinna. Flugfélagið fullyrðir að það hafi enga stjórn á verkfallinu.

Krefjast 13% launahækkunar

Verkfallið er tilkomið vegna deilu á milli flugmanna í Skandinavíu og SAS. Deilan snýst bæði um laun og vinnutíma. Meðal annars vilja flugmennirnir fá að vita með meiri fyrirvara hvenær þeir þurfi að vinna. Eins og staðan er núna fá margir flugmannanna ekki að vita hvernig þeir eigi að vinna nema með tveggja vika fyrirvara. Þetta leiðir stundum til þess að flugmennirnir þurfa að vinna allt að sjö daga í senn. 

Sænskir flugmenn eru sagðir vilja 13% launahækkun en þeim var boðin launahækkun upp á 2,3%. Launakröfur norsku og dönsku flugmannanna hefur ekki verið staðfest. Samband sænskra samgöngufyrirtækja segir að launakröfurnar séu óraunhæfar þar sem flugmennirnir séu nú þegar með 93.000 sænskar krónur í mánaðarlaun, eða sem samsvarar tæpum tólf hundruð þúsund íslenskum krónum. 

Óvíst er hvenær SAS og flugmenn flugfélagsins funda á nýjan leik. Í myndbandi sem birtist af framkvæmdastjóra SAS, Rickard Gustafson, á föstudaginn hét hann því að gera allt sem í hans valdi stæði til að ljúka deilunni sem fyrst. 

Danski bankinn Sydbank áætlar að verkfallið kosti SAS minnst 60 milljónir sænskra króna, eða sem nemur 769 milljónum íslenskra króna, daglega. 

Litlu munaði að SAS færi í gjaldþrot árið 2012 og hefur flugfélagið ákaft reynt að bæta stöðu sína síðan þá. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 tapaði félagið 469 milljónum sænskra króna eða sem nemur um 6 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert