Skríða í átt að útrýmingu

Framtíð hundraða skjaldbaka í friðlandi í Singapúr, þar á meðal tegunda í útrýmingarhættu, er í óvissu. Þær urðu að flytja vegna byggingaráforma stjórnvalda. 

Þegar mest lét var The Live Turtle-safnið heimili um 1.000 skjaldbaka. Safnið var opnað fyrir almenningi árið 2001 og hefur allar götur síðan verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Safnið eignaðist marga aðdáendur en aðrir gagnrýndu þann aðbúnað sem dýrunum var boðið upp á. Yfirvöld ákváðu að gera nýtt skipulag fyrir svæðið sem er í hinum þekktu Kínversku görðum sem þýðir að Connie Tan, sem á dýrasafnið, þurfti að flytja. Hún leitar nú að fjármagni til byggja safnið betur upp á nýjum stað.

„Ég fórnaði miklu fyrir þetta, svo þetta er erfitt. Peningar sem ég ætlaði til háskólagöngu sonar míns hafa farið í það að halda lífi í þessum stað,“ segir Tan. Það var faðir hennar sem stofnaði safnið sem komst í heimsmetabók Guinness fyrir að vera stærsta safn skjaldbaka í veröldinni.

Leitaði til forsætisráðherrans

Tan tryggði sér aðeins lágmarks fjármagn til að koma safninu fyrir á nýjum stað og hefur auk þess aðeins leigusamning til tveggja ára. Framtíð skjaldbakanna er því í mikilli óvissu. Hún hefur barist af hörku fyrir því að halda safninu opnu og leitaði m.a. á náðir forsætisráðherrans er hún þurfti lengri tíma til að finna nýjan stað fyrir starfsemina.

Á meðan flutningunum stóð varð hún að loka markaðsskrifstofu sem hún rekur til að koma skjaldbökum fyrir á skrifstofunni sinni. Á þeim tíma gat hún því ekki aflað neinna tekna.

 Safnið er nú allt komið til Yishun, inn í íbúahverfi sem er utan alfaraleiðar ferðamanna. 

Tan-fjölskyldan hefur safnað skjaldbökum í yfir fjörutíu ár. Flest dýranna voru höfð sem gæludýr en höfðu verið yfirgefin af eigendum sínum áður en fjölskyldan tók þau að sér. 

„Skjaldbökur sýna ekki sömu viðbrögð og hundar en þær geta átt samskipti ef þeim er veitt athygli. Svo þeir sem ætla að hafa þær sem gæludýr verða að vita hvernig þær eru,“ segir Tan.

Um fimmtíu tegundir

Í safninu eru í kringum fimmtíu tegundir, m.a. skjaldbökur sem eru nú í útrýningarhættu. Ein þeirra er Reeves-skjaldbakan sem hefur verið ofveidd í náttúrunni til að nota til óhefðbundinna kínverskra lækninga.

Tan segir að flutningurinn hafi verið sumum dýrunum erfiður, þau hafi fyrst eftir þá hagað sér öðruvísi en áður. Hún vonar að gestir og aðrir vilji styðja við safnið svo að skjaldbökurnar öðlist örugga framtíð. „Hollvinir safnsins hafa verið gjafmildir og ég hef fengið hingað gesti sem koma langt að, frá Rússlandi, Póllandi og jafnvel Ísrael. Það gefur mér von um betri framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert