Karlmenn fremja 90% morða

Gengjaátök knýja áfram flest morð sem framin eru í heiminum. …
Gengjaátök knýja áfram flest morð sem framin eru í heiminum. Morð vegna skipulagðrar glæpastarfsemi eru fimmfalt fleiri en vegna eiginlegra stríðsátaka. AFP

Árið 2017 voru 464.000 morð framin um allan heim. Á sama tíma létust aðeins 89.000 í stríðsátökum. Morð eru því fimmfalt algengari en dauði í stríði, ef marka má nýja skýrslu morð- og eiturlyfjaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC). 

Morðum í veröldinni fjölgar. Árið 1992 voru 395.542 drepnir og árið 2017 464 þúsund eins og segir. Fólki fjölgar hins vegar á sama tíma og hlutfallslega eru nú færri myrtir en voru áður. Á hverja 100 þúsund íbúa eru 6,1 myrtir nú, á við 7,2 árið 1992. 

Morðin eru flest framin í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi, eða um 19%. Frá upphafi 21. aldar hafa dauðsföll vegna skipulagðrar glæpastarfsemi verið hér um bil jafnmörg og þau sem verða vegna stríðsátaka. Og glæpastarfsemi þessi er hjá UNODC sögð hafa jafnslæm áhrif á samfélög og eiginleg stríðsátök.

Drengir og stúlkur myrt í sama mæli en fullorðnir karlar mun oftar

Í Brasilíu, Hondúras og Mexíkó segir í skýrslunni að snaraukin tíðni morða tengist oft sveiflum á eiturlyfjamarkaði. Þar getur verið stöðugt hlutfall skipulagðrar glæpastarfsemi sem grasserar árum saman en svo kemur skyndilega mikið magn af kókaíni eða annars konar smyglvarningi inn á markaðinn og þá rýkur morðhlutfall upp. 

Morðtíðni er mjög ólík eftir svæðum, og mest í Suður-Ameríku. …
Morðtíðni er mjög ólík eftir svæðum, og mest í Suður-Ameríku. Þar eru gengjaátök lykilþáttur í tíðninni. Skjáskot/UNODC

Á meðan morð vegna gengjaátaka verða æ færri í Bandaríkjunum, eru þau lykilþáttur í hárri tíðni í Suður-Ameríku. Það má meðal annars sjá skýrt af þeirri staðreynd, að þar eru 10 sinnum fleiri karlmenn myrtir en konur. Á sama tíma fremja karlmenn 90% af öllum morðum í heiminum. Eftir því sem karlmenn eldast myrða þeir og eru myrtir í auknum mæli en drengir og stúlkur yngri en 9 ára eru fórnarlömb morðs í næstum því sama mæli. Í mestri hættu á að vera myrtir eru karlmenn á aldrinum 15-29 ára.

Í skýrslunni er einnig talað um að áfengis-, eiturlyfja- og skotvopnalöggjöf leiki lykilhlutverk í þessum málum. Stjórnmálalegir þættir skipti höfuðmáli, svo sem löggæsla, eftirlit með spillingu og fjárfesting í félagslegum innviðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert