Þúsundir flýja skógarelda í Portúgal

Íbúi í bænum Amendoa reynir að berjast við eldinn með …
Íbúi í bænum Amendoa reynir að berjast við eldinn með vatnsslöngu að vopni. AFP

Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín vegna skógarelda sem geisa nú í héraðinu Castelo Branco í Portúgal, um 200 kílómetra frá höfuðborginni Lissabon. Um eitt þúsund slökkviliðsmenn berjast við eldinn sem hefur slasað níu manns, þar af átta slökkviliðsmenn.

Slökkviliðsmenn hafa nýtt þyrlur og flugvélar við slökkvistarf, auk þess sem herinn hefur verið kallaður út til aðstoðar. 

Mikill hiti, um og yfir 35 gráður, og sterkir vindar hafa gert slökkviliði erfitt fyrir að takast á við eldinn, sem braust út í gærkvöldi og hefur síðan breiðst út. Yfirvöld vonast þó til að tökum verði náð á eldinum von bráðar.

Skógareldar eru árlegt brauð í Portúgal, en þetta er fyrsta tilvikið í ár. Tvö ár eru síðan 106 létu lífið í banvænustu skógareldum sem sögur fara af í Portúgal. Í kjölfar þeirra voru varnir yfirvalda gegn skógareldum stórbættar og hefur enginn látið lífið í skógareldum í Portúgal síðan þá.

Slökkviliðsmenn nota flugvélar við störf sín.
Slökkviliðsmenn nota flugvélar við störf sín. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert