Þýskir níðingar fengu þunga dóma

Mario S og Andreas V ásamt verjendum sínum.
Mario S og Andreas V ásamt verjendum sínum. AFP

Tveir Þjóðverjar voru dæmdir í 12 og 13 ára fangelsi í dag fyrir barnaníð á tjaldstæði skammt frá Hannover undanfarna tvo áratugi.

Andreas V., sem er 56 ára, fékk 13 ára dóm og félagi hans, Mario S., sem er 34 ára, fékk 12 ára dóm fyrir héraðsdómi í Detmold. Mennirnir, sem játuðu sök, voru báðir sendir í afplánun strax eftir dómsuppkvaðningu í morgun en það er yfirleitt ekki gert nema við hættulegustu glæpamennina.  

Tvímenningarnir eru taldir hafa verið höfuðpaurar í níðingsverkum sem framin voru á tjaldstæðinu í Lügde árum saman. Þeir, ásamt Heiko V., voru sakaðir um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi í 450 skipti. 

Eichwald tjaldsvæðið í Luegde.
Eichwald tjaldsvæðið í Luegde. AFP

Að sögn saksóknara voru yfir 40 börn fórnarlömb níðinganna á tímabilinu 1998 til 2018. Flest barnanna voru á aldrinum þriggja til 14 ára þegar ofbeldið var framið. 33 vitni, þar af 16 fórnarlömb og 12 ættingjar, báru vitni fyrir dómi en réttarhöldin hafa staðið yfir í tíu vikur. 

Gríðarleg reiði greip um sig meðal almennings í Lügde þegar málið komst í kastljós fjölmiðla í janúar. Ekki síst þegar í ljós kom hversu mörg mistök yfirvöld og lögregla höfðu gert. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert