Gefa leiðtogum Hong Kong „lokatækifæri“

Hálft ár er nú liðið frá því að fyrstu fjöldamótmælin af mörgum í þeirri mótmælaöldu sem verið hefur í Hong Kong fóru fram og þess minnast þeir fjölmörgu mótmælendur sem streyma út á götur borginnar í dag. Skipuleggjendur mótmælanna segja að leiðtogar sjálfstjórnarhéraðsins hafi nú „lokatækifæri“ til þess að koma til móts við þá og lægja öldurnar.

Tvær vikur eru frá kosningum í Hong Kong og þar fengu mótmælendur byr undir báða vængi, enda sýndu úrslitin að yfirlýsingar stjórnvalda um að „þögull meirihluti“ Hong Kongara væri á móti málstað mótmælenda ættu ekki við rök að styðjast.

„Ríkisstjórnin hlustar ekki“

Margir þeirra sem koma út á göturnar lýstu yfir reiði í garð héraðsstjórans Carrie Lam og stjórnvalda í Peking, sem hafa útilokað að koma til móts við kröfur mótmælenda þrátt fyrir úrslit kosninganna.

„Það skiptir ekki málið hvernig við tjáum skoðun okkar, með friðsamlegum mótmælagöngum, með siðuðum kosningum, ríkisstjórnin hlustar ekki. Hún fylgir bara skipunum frá kínverska kommúnistaflokknum,“ hefur AFP-fréttastofan eftir fimmtugum mótmælanda að nafni Wang sem tekur þátt í mótmælum dagsins.

Tvær vikur eru frá kosningum í Hong Kong og þar …
Tvær vikur eru frá kosningum í Hong Kong og þar fengu mótmælendur byr undir báða vængi, enda sýndu úrslitin að yfirlýsingar stjórnvalda um að „þögull meirihluti“ Hong Kongara væri á móti málstað mótmælenda ættu ekki við rök að styðjast. AFP

Sirius Tam, 21 árs gamall mótmælandi, segir að átökin í samfélaginu í Hong Kong muni ekki hverfa ef héraðsstjórnin neiti að leysa úr því „kerfisbundna óréttlæti“ sem sé til staðar.

Fengu sjaldgæft leyfi til mótmæla í dag

Mótmælaganga dagsins er með sjaldgæfu leyfi löggæsluyfirvalda, en slíkt leyfi til skipulagðra mótmæla hafa samtökin Civil Human Rights Front (CHRF) ekki fengið frá því í ágústmánuði. Lögregla varaði þó við því að ofbeldi af hálfu róttæklinga yrði ekki liðið og er við öllu búin.

Kröfur mótmælenda snúa að því sem fyrr að kosningar í Hong Kong verði algjörlega frjálsar og einnig vilja mótmælendur að sjálfstæð rannsókn fari fram á því hvernig lögregla hefur tekið á mótmælendum og að þeir sem hafa verið handteknir fái sakaruppgjöf.

Í morgun greindi lögregla frá því að vopn hefðu verið gerð upptæk í húsleitum í nótt, þar á meðal skammbyssa og hnífar, sem lögregla segist telja að hafi átt að beita í mótmælum dagsins. Ellefu voru handteknir vegna þessa og bætast þeir í hóp þeirra 6.000 sem hafa verið handteknir í aðgerðum tengdum mótmælum í Hong Kong undanfarna sex mánuði.

Lögregla greindi frá því snemma á sunnudagsmorgun að vopn hefðu …
Lögregla greindi frá því snemma á sunnudagsmorgun að vopn hefðu verið gerð upptæk í nótt, þar á meðal þessi Glock-skammbyssa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert