Sex flugskeyti lentu á græna svæðinu í Bagdað

Þetta skjáskot, úr myndbandi á YouTube, sýnir skemmdir á ökutæki …
Þetta skjáskot, úr myndbandi á YouTube, sýnir skemmdir á ökutæki sem varð fyrir sprengjukúlu innan græna svæðisins í gær. AFP

Fregnir berast nú af því frá Bagdað höfuðborg Íraks að sex Katyusha-flugskeyti hafi hæft „græna svæðið“ svokallaða í borginni, öryggissvæði þar sem skrifstofur ríkisstjórnarinnar, alþjóðastofnana og erlendra sendiráða eru til húsa.

Þrjár eldflaugar til viðbótar hæfðu Jadriya-hverfið sem er þar í grenndinni, samkvæmt frétt Al Jazeera, sem vísar til yfirlýsingar íraska hersins um málið.

Heimildarmenn miðilsins innan lögreglu segja að sex hafi særst innan græna svæðisins og AFP-fréttastofan segir að fjórir hafi særst þegar flugskeyti lenti á heimili fjölskyldu rétt utan við öryggissvæðið.

Vitni segja við AFP-fréttastofuna að tvö flugskeyti hafi lent nærri bandaríska sendiráðinu.

Sprengjukúlum var varpað á græna svæðið í gærkvöldi, en þá særðist enginn.

Frétt Al Jazeera

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert