Brenndi eiginkonu og börn sín lifandi

Hannah Baxter með börnum sínum: Trey, Laianah og Aaliyah.
Hannah Baxter með börnum sínum: Trey, Laianah og Aaliyah. Af Facebook

Fyrrverandi ruðningsleikmaður er grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína og þrjú börn þeirra með því að brenna þau lifandi í bifreið þeirra. Lögreglan lýsir aðkomunni sem einni þeirri skelfilegustu sem hún hafi upplifað. Fjölskyldan lýsir manninum sem skrímsli sem hafi ítrekað beitt konu sína ofbeldi. 

Að sögn lögreglu lést Hannah Clarke, 31 árs, á sjúkrahúsi í Brisbane aðeins nokkrum klukkutímum eftir að hún fannst í bílnum ásamt þremur börnum þeirra. Börnin, sem voru þriggja, fjögurra og sex ára, voru öll látin þegar lögregla kom á vettvang. Eiginmaður hennar fyrrverandi, Rowan Baxter, lést einnig. Hann er sakaður um að hafa hellt  bensíni yfir fjölskyldu sína í bifreiðinni í úthverfi Brisbane og kveikt í, samkvæmt frétt The Australian.

Í frétt blaðsins kemur fram að Clarke hafi komið logandi út úr bifreiðinni og sagt: „Hann hellti bensíni yfir mig.“

Af Facebook

Baxter, sem var 42 ára gamall, er fyrrverandi leikmaður New Zealand Warriors. Talið er að hann hafi verið inni í bifreiðinni en komist út og látist á gangstéttinni við bifreiðina. Að sögn lögreglu lést hann af völdum brunasára og sjálfsáverka. Fullvíst þykir að hann hafi myrt börn sín og Hannah Clarke að sögn lögreglu og sjálfur veitt sér áverka þá sem drógu hann til dauða. 

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, segir þjóðina í áfalli og fulla sorgar vegna þessa hörmulega atburðar. Viðbrögð við morðunum hafa verið gríðarleg á samfélagsmiðlum og ekki síst vegna ofbeldisbrota gagnvart konum í Ástralíu, einkum af hálfu maka eða fyrrverandi maka. 

Upplýst hefur verið um að Baxter hafi ítrekað komist í kast við lögreglu vegna heimilisofbeldis og yfirgaf Clarke skömmu fyrir síðustu jól en ekki hafði verið gengið frá skilnaði þeirra. Bæði fjölskylda hans og hennar segja að hann hafi ítrekað beitt hana ofbeldi auk þess sem hann stýrði heimilinu með harðri hendi.

Frétt Guardian

Frétt ABC 

Frétt News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert