Sigur vinnst ekki á meðan sundrung ríkir

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. AFP

Kórónuveirufaraldurinn er enn í vexti á heimsvísu og áhrif hans mun gæta næstu áratugi. Helsta ógnin stafar ekki af veirunni sjálfri heldur „skorti á samstöðu og leiðtogahæfni á alþjóðavettvangi“.  

Þetta er meðal þess sem fram kom í ávarpi Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmanns Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), á alþjóðlegu heilbrigðisþingi í dag sem skipulagt er af yfirvöldum í Dúbaí. 

„Við getum ekki sigrast á faraldrinum á meðan sundrung ríkir í heiminum. Stjórnmálavæðing faraldursins hefur gert hann þungbærari. Ekkert okkar er öruggt fyrr en öll verða örugg,“ sagði Tedros einnig.  

Í síðustu viku varaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin við nýrri og hættulegri bylgju faraldursins þar sem verið er að aflétta takmörkunum víða í ríkjum þar sem faraldurinn er ekki í rénun, svo sem í Bandaríkjunum, Rússlandi og Brasilíu. 

Frá því faraldurinn braust út í Kína í lok síðasta árs hafa yfir 465 þúsund manns látið lífið og nærri níu milljónir smitast. 

„Við vitum að faraldurinn er miklu meira en bara heilbrigðiskreppa, hann er einnig efnahagskreppa, félagsleg krísa og, í mörgum löndum, stjórnmálakreppa. Áhrifa hans mun gæta næstu áratugi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert