Íslendingar nú undanskildir sóttkví í Bretlandi

Hér sést barþjónn sem opnaði bar í Chessington í Bretlandi …
Hér sést barþjónn sem opnaði bar í Chessington í Bretlandi síðastliðinn laugardag í fyrsta sinn eftir víðtækar lokanir vegna útbreiðslu veirunnar. Nú geta Íslendingar sótt enska bari heim án þess að fara í sóttkví við komuna til landsins. AFP

Íslendingar eru frá og með deginum í dag undanþegnir reglum um fjórtán daga sóttkví við komuna til Bretlands ásamt 58 öðrum löndum. Löndin 59 hafa þó ekki öll aflétt takmörkunum fyrir ferðamenn frá Bretlandi. BBC greinir frá þessu.

Ferðamenn frá öllum Norðurlöndunum nema Svíþjóð eru nú undanþegnir reglum um fjórtán daga sóttkví við komuna til Bretlands. Eins og áður hefur verið greint frá hafa Svíar nálgast baráttuna við veiruna með allt öðrum hætti en hinar Norðurlandaþjóðirnar. 

Ástralía, Hong Kong, Pólland, Ítalía og Frakkland eru á meðal þeirra þjóða sem eru nú undanskildar reglunum en stórveldin þrjú: Bandaríkin, Kína og Rússland komast ekki á listann. Ýmis Asíuríki er þar að finna, til dæmis Víetnam, Taívan og Japan en kórónuveiran kom fyrst upp í Asíu.

Listi yfir þær þjóðir sem geta ferðast til Bretlands án þess að sæta sóttkví verður í stöðugri endurskoðun, að sögn breskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert