Ósátt við sóttvarnareglur

Yfirvöld í strandbæjum í Belgíu hafa gripið til hertra sóttvarnareglna til að koma í veg fyrir að fólk komi þangað í dagsferðir á ströndina. Til átaka kom á milli ungmenna og lögreglu um helgina þegar unga fólkið neitaði að virða öryggisreglur sem í gildi eru. 

Flæmsku bæirnir Knokke-Heist og Blankenberge eru mjög vinsælir meðal ferðamanna sem njóta þess að dvelja á ströndinni í hitabylgju líkri þeirri sem nú er á meginlandi Evrópu.

Lögreglan handtók um helgina nokkra ferðamenn sem neituðu að virða reglur á ströndinni og segja bæjaryfirvöld að ekki sé hægt annað en að herða reglur. Daphne Dumery, bæjarstjóri í Blankenberge, segir að allir þeir sem koma til bæjarins verði að hafa góða og gilda ástæðu fyrir komu sinni. Þeim, sem ætla sér aðeins að eyða deginum á ströndinni, er synjað um inngöngu. Bæjaryfirvöld í nágrannabænum Knokke-Heinst ákváðu einnig að grípa til sambærilegra aðgerða. 

Fylgst grannt með strandgestum í Blankenberge.
Fylgst grannt með strandgestum í Blankenberge. AFP

Lögreglan er við eftirlit og kannar meðal þeirra sem koma inn í bæina hvort viðkomandi býr þar eða dvelur á hóteli eða hafi leigt íbúð. Eftirlitið nær til allra bifreiða sem koma í bæinn. Þeir sem ekki hyggjast dvelja í einhvern tíma í bæjunum er vísað frá. 

COVID-19-smitum hefur fjölgað mjög mikið í Brussel og óttast ýmsir að yfirvöld muni herða reglur þar að nýju, ekki síst í Saint-Gilles, en smitum fjölgar mjög hratt í hverfinu sem er þekkt fyrir kaffihús, bari og matarmarkaði. 

AFP
Frá Knokke um helgina.
Frá Knokke um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert