Hvetja stríðandi fylkingar til að slíðra sverðin

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna hefur miklar áhyggjur af stigvaxandi átökum á svæðum Palestínumanna, þar á meðal í austurhluta Jerúsalem og Ísrael. Rupert Colville, talsmaður skrifstofunnar, segir að skrifstofan fordæmi slíkt ofbeldi og hvetur Ísraelsher til að vernda tjáningarfrelsið en að minnsta kosti 25 Palestínumenn hafa verið drepnir á Gaza. 

Colville segir að aldrei eigi að nota herafla gegn þeim sem berjast fyrir réttindum sínum með friðsamlegum hætti. Undanfarna daga hafa átökin verið þau mestu síðan 2017. Um 300 Palestínu­menn slösuðust þegar ísra­elsk lög­regla gerði árás á al-Aqsa-mosk­una í gömlu borg­inni í Jerúsalem á föstu­dag þegar bæna­hald vegna rama­dan stóð yfir.

Amnesty International mótmælir einnig aðgerðum Ísraelshers í austurhluta Jerúsalem og segir að herinn beiti þar vopnum og hörku í garð mótmælenda sem fara flestir fram með friðsömum hætti. 

Palestínumenn hafa skotið yfir 200 eldflaugum frá Gaza-ströndinni að Ísrael frá því í gær. Colville segir að þetta sé skýrt brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og þessu verði að linna strax. Ísrael hefur svarað með árásum sem hæfðu 130 skotmörk á Gaza. 

„Atburðirnir í Jerúsalem og loftárásir Ísraelshers undanfarna sólarhringa á Palestínu sem hafa kostað alla vega 20 manns lífið, þar af 9 börn, eru ólíðandi og grafalvarlegir,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ég sakna þess mjög að sjá ekki afdráttarlausari og skýrari skilaboð um afstöðu ríkisstjórnar Íslands um að fordæma hernaðaraðgerðir Ísraelshers gagnvart saklausum borgurum Palestínu.

Ísland á sérstakt samband við Palestínu. Við vorum fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis árið 2011 og erum aðilar að fríverslunarsamningi við Palestínu í gegnum EFTA.

„Við höfum einnig söguleg tengsl við Ísraelsríki frá stofnun þess árið 1948. 25. júní á síðasta ári sendum við fjórir þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu í utanríkismálanefnd frá okkur yfirlýsingu um að ríkisstjórn Íslands myndi beita sér með ákveðnum og skýrum hætti fyrir friðsamlegri lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna vegna yfirtöku Ísraela á Vesturbakkanum og að því yrði komið skýrt á framfæri við ísraelsk stjórnvöld að áform þeirra gagnvart Palestínu þá væru óviðunandi. Staðan nú hefur versnað mjög til hins verra,“ segir meðal annars í færslu á Facebook-síðu hennar. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert