Eldgosið aftur af stað eftir stutt hlé

Stutt hlé varð á eldgosinu á Kanaríeyjum í morgun áður en það hófst á nýjan leik. Íbúar hafa verið hvattir til að halda sig heima við af ótta við gasmengun þegar hraun rennur út í sjóinn.

Eldfjallið La Cumbre Vieja, sem er á suðurhluta eyjunnar La Palma, gaus fyrst 19. september. Síðan þá hefur hraun runnið hægt og rólega í átt að sjónum. Flugvellinum á eyjunni var lokað á laugardaginn en hann var opnaður aftur í gær. 

Snemma í morgun hætti eldgosið og allt varð hljótt á eyjunni, áður en allt hófst aftur þó  nokkrum klukkustundum síðar, að sögn fréttamanns AFP á staðnum.

Á meðan á hléinu stóð hélt reykur þó áfram að streyma upp úr eldfjallinu.

Dregið úr virkninni 

Talsmaður Eldfjallafræðistofnunar Kanaríeyja, David Calvo, sagði að sem stendur væri einungis aska að berast frá eldfjallinu. Hann bætti við að annaðhvort kröftugar sprengingar eða rólegheit hefðu verið einkennandi í eldfjallinu í dálítinn tíma.

Hann staðfesti að dregið hefði úr virkninni undanfarna daga.

Hraunið hefur runnið mun hægar í átt að sjónum en búist var við. Að sögn sérfræðinga mun eiturgas fara út í andrúmsloftið um leið og það gerist, auk þess sem von er á sprengingum og miklum hávaða.

Aska streymir úr eldfjallinu La Cumbre Vieja.
Aska streymir úr eldfjallinu La Cumbre Vieja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka