„Drepa sér til ánægju“

Volódímír Selenskí Úkraínuforseti flutti þjóð sinni jólaávarp í gær í …
Volódímír Selenskí Úkraínuforseti flutti þjóð sinni jólaávarp í gær í kjölfar mannskæðrar árásar Rússa á borgina Kerson. Ljósmynd/Forsetaskrifstofa Úkraínu

„Frelsið er dýrt. En þrældómur er dýrari,“ sagði Volódímír Selenskí Úkraínuforseti í jólaávarpi til stríðshrjáðrar þjóðar sinnar í gær, á aðfangadag jóla.

Flutti hann ávarpið í kjölfar mannskæðrar flugskeyta- og drónaárásar Rússa á borgina Kerson sem kostaði tíu íbúa hennar lífið auk þess sem stórtjón varð á dreifingarkerfum rafmagns og vatns. Yfirvöld þar á svæðinu sögðu enn fremur að 68 manns væru sárir eftir árásirnar og sendu ákall til almennings um að fólk gæfi blóð væri þess nokkur kostur.

„Heimurinn verður að sjá og átta sig á þeirri hreinu illsku sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu þar sem hann lýsti Rússlandi sem hryðjuverkaríki og kvað rússneska hermenn „drepa sér til ánægju og til að vekja ótta“.

„Þraukum gegnum þennan vetur“

Birti forsetinn myndir á samfélagsmiðlasíðum sínum sem sýndu glundroða á götum Kerson, brennandi bifreiðar og lík. Síðan Úkraínumenn náðu Kerson aftur á sitt vald í nóvember hafa Rússar ekki skirrst við að ráðast á borgina af öllum mætti með flugskeytum og árásardrónum en stjórnvöld í Moskvu hafa hins vegar ítrekað vísað því á bug að þau beini skeytum sínum að almennum borgurum. Vladimír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi hins vegar að her hans gerði atlögu að mikilvægum orkumannvirkjum Úkraínumanna.

„Við ætlum okkur ekki að bíða eftir kraftaverki, þegar allt kemur til alls vinnum við kraftaverkin sjálf,“ sagði Selenskí í jólaávarpinu og minntist þess að þjóðin hefði þreyð þorrann gegnum upphafsdaga innrásar Rússa, gegnum árásir þeirra, hótanir, kúgun, hrylling og flugskeytaárásir.

„Þraukum gegnum þennan vetur vegna þess að við vitum hvað við berjumst fyrir. Við munum halda okkar hátíð. Eins og ávallt. Við munum brosa og gleðjast. Eins og ávallt. Munurinn er aðeins einn. Við bíðum ekki eftir kraftaverki þegar við vinnum það sjálf,“ endurtók Selenskí undir lok ávarps síns.

BBC

Newsweek

France24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert