Nárú viðurkennir ekki lengur Taívan

Tien Chung-kwang, aðstoðarutanríkisráðherra Taívan, tjáði sig um ákvörðun Nárú í …
Tien Chung-kwang, aðstoðarutanríkisráðherra Taívan, tjáði sig um ákvörðun Nárú í morgun. AFP/ Sam Yeh

Kyrrahafseyjan Nárú lýsti því yfir í morgun að hún muni ekki lengur viðurkenna Taívan sem ríki og taka upp stjórnmálasamband við Kína á ný. 

Um 12 þúsund manns búa á Nárú, sem er lítil eyja í Kyrrahafi. Nárú var eitt af tólf ríkjum, sem voru með stjórnmálasamband við Taívan en stjórnvöld þar lýstu því yfir í morgun að þau viðurkenndu ekki lengur Taívan, sem ríki heldur væri eyjan óaðskiljanlegur hluti af Kína.

Taív­an hef­ur haft sjálfs­stjórn frá borg­ara­stríðinu í Kína árið 1949 og líta Taívanar á landið sem full­valda ríki. Þeir hafa eig­in mynt, stjórn- og dóms­kerfi, en hafa aldrei lýst form­lega yfir sjálf­stæði.

Tien Chung-kwang, aðstoðarutanríkisráðherra Taívan, sakaði Kínverja í morgun um að hafa „keypt“ Nárú með loforðum um fjárhagsaðstoð. Kína og Taívan hafa lengi tekist á um hollustu smáríkja í Kyrrahafi og boðið þeim fjárhagsaðstoð.

Stjórnvöld í Kína fögnuðu ákvörðun Nárú í morgun og sögðu að þau væru reiðubúin til að styrkja tengslin við eyríkið.  

Taívan gaf til kynna að þessi ákvörðun tengdist forsetakosningum þar um helgina en Kínverjar hafa sagt að Lai Ching-te, sem var kjörinn forseti, sé hættulegur aðskilnaðarsinni.

Bandalagsríkjum Taívan í Kyrrahafi hefur farið fækkandi á síðustu árum. Árið 2019 tilkynntu Salómonseyjar að þær viðurkenndu Kína. Aðeins 12 ríki, þar á meðal Páfagarður, viðurkenna Taívan sem sjálfstætt ríki. Árið 2002 sleit Taívan stjórnmálasambandi tímabundið við Nárú en það var tekið upp að nýju árið 2005.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka