Skipið með tilskilin leyfi og stóðst skoðanir

Yfirvöld óttast alvarlegar afleiðingar slyssins bæði fyrir umferð bíla og …
Yfirvöld óttast alvarlegar afleiðingar slyssins bæði fyrir umferð bíla og skipa. AFP/Roberto Schmidt

Hafnaryfirvöld í Singapúr segja að flutningaskipið sem skall á brúna Francis Scott Key í banda­rísku borg­inni Baltimore með þeim afleiðingum að brúin hrundi og lokaði þannig einni um­svifa­mestu höfn Banda­ríkj­anna, hafi staðist tvær skoðanir erlendis á síðasta ári.

Þannig hafi öll tilskilin leyfi og skírteini, sem ná yfir bæði burðarvirki skipsins og virkni búnaðarins, verið í gildi þegar slysið átti sér stað. Hafnaryfirvöld tóku jafnframt fram að í júní hafi eftirlitsmælir fyrir eldsneytisþrýsting verið lagaður. 

Þá buðu hafnaryfirvöld í Singapúr bandarísku strandgæslunni aðstoð við rannsókn málsins og lögðu rannsakendur frá stofnun sem hefur eftirlit með öryggi í samgöngumálum í ríkinu leið sína til Baltimore seint í gær. 

Átta verkamenn féllu í ána

Í til­kynn­ingu frá hafn­ar­stjórn Baltimore seg­ir að skipið hafi orðið aflvana skömmu áður en það skall á brúnni. Fyr­ir vikið gat áhöfn­in ekki stýrt stefnu skips­ins.

Enn frem­ur seg­ir að áhöfn­in hafi varpað akk­er­inu þegar mönn­um varð ljóst að skipið myndi skella á brúnni. Engin úr áhöfninni slasaðist. 

Talið er að átta verka­menn, sem störfuðu að næt­ur­lagi við holu­fyll­ing­ar í brúnni, hafi fallið í ána. Tveim­ur verka­mönn­um var bjargað þaðan, ann­ar var ómeidd­ur en hinn al­var­lega slasaður. Sex er enn saknað og eru þeir tald­ir af í ljósi þess hve langt er liðið frá því að brú­in hrundi. Hef­ur nú hlé verið gert á leit­inni að þeim.

Skipið sem sigldi á brúna Franc­is Scott Key í Baltimore …
Skipið sem sigldi á brúna Franc­is Scott Key í Baltimore með þeim af­leiðing­um að brú­in hrundi varð tíma­bundið aflvana rétt fyr­ir árekst­ur­inn. AFP/ National Transportation Safety Board

Efast burðarvirki brúarinnar

Einhverjir sérfræðingar hafa bent á að burðarvirki brúarinnar geti ekki hafa verið rétt varið því þá hefði það átt að standast áreksturinn frá flutningaskipinu. 

Toby Mottram, prófessor í byggingaverkfræði við háskólann í Warwick, segir höggið við slysið hafa verið töluvert, sérstaklega í ljósi þess að skipið var hlaðið miklum farmi auk þess sem skipið var á nokkurri ferð. 

„Það er augljóst að brúin þoldi ekki höggið. [...] Umfang tjónsins á yfirbyggingu virðist í óhófi við orsökina,“ segir hann. 

Hafnarstjórn Baltimore hefur þó tekið fram að hrun brúarinnar hafi ekkert haft með burðarvirki hennar að gera. 

Hrunið muni hafa alvarleg áhrif á svæðið

Yfirvöld hafa lokað brúnni þar til annað verður tilkynnt og umferð verður beint frá brúnni á meðan björgunarstarf heldur áfram. Embættismenn hafa þó sagt að leit og björgunaraðgerðum sé að linna og að nú sé lögð ríkari áhersla á uppbyggingu og endurheimt brúarinnar. 

Þá er jafnframt fylgst grannt með eldsneytisleka frá flutningaskipinu. 

Búist er við því að hrun brúarinnar muni hafa alvarlega áhrif á svæðið, meðal annars á umferð, auk þess sem tafir gætu orðið á skipaferðum vegna alls ruslsins sem flýtur um ána í kjölfar slyssins. 

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti segir að brúin verði reist að nýju …
Joe Biden Banda­ríkja­for­seti segir að brúin verði reist að nýju við fyrsta tækifæri. AFP/National Transportation Safety Board

Ein mikilvægasta höfnin í Bandaríkjunum

Höfn­in í Baltimore er ní­unda mik­il­væg­asta höfn­in í Banda­ríkj­un­um, bæði þegar metið er um­fang inn­flutn­ings­vara og verðmæti þeirra. 15 þúsund manns starfa við hafnartengd störf og eru af­leidd störf tal­in um 140 þúsund.

Höfn­in í Baltimore er ekki bara mik­il­væg í vöru­flutn­ing­um held­ur einnig fyr­ir skemmti­ferðaskip. Um 440 þúsund farþegar lögðu úr höfn frá Baltimore á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert