Talinn trúverðugur af lögreglu

Verjendur í Straumsvíkurmálinu.
Verjendur í Straumsvíkurmálinu. Morgunblaðið/Andri Karl

Í Straumsvíkurmálinu má segja að takist á tveir menn, aðalmennirnir Geir Hlöðver Ericsson og Sævar Sverrisson. Því er það ekki aðeins ákæruvaldið sem reynir að færa sönnur á sekt þeirra heldur heyja innbyrðis glímu verjendur Geirs og Sævars; Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Ómar Örn Bjarnþórsson.

Um er að ræða umfangsmikla ákæru sem inn í fléttast einstaklingar sem kannski að ósekju þurftu að þola fullmikinn ágang fjölmiðla í héraðsdómi í dag. Þeir koma ekki við sögu í stærsta ákæruliðnum sem nafn málsins er dregið af, innflutningi á miklu magni fíkniefna sem fundust í vörugámi í Straumsvík 10. október. 

Hér verður að mestu leyti aðeins fjallað um þann þátt ákærunnar, en einnig að litlu leyti um annan þar sem fjallað er um vörslur á 660 grömmum af amfetamíni. Í báðum liðum er Geir Hlöðver ákærður en Sævar aðeins vegna innflutningsins. Sævar var hins vegar dreginn óvænt inn í atburðarásina í hinum ákæruliðnum fyrir tilstilli Geirs Hlöðvers.

Ákæruvaldið ósátt með framburð lögreglumanns

Fyrir það fyrsta ber að nefna að strax 10. október þegar Sævar Sverrisson var handtekinn með fíkniefnin sem falin voru í gámnum játaði hann sekt sína. Hann játaði þó með þeim formerkjum að hann hefði verið að flytja inn steratöflur. Frá upphafi sagðist hann ekkert hafa vitað um fíkniefni í gámnum.

En Sævar játaði ekki aðeins aðild sína. Allmargir lögreglumenn og rannsóknarlögreglumenn gáfu skýrslu fyrir dómi í dag og báru allir um, að Sævar hefði verið einkar samvinnuþýður frá fyrstu mínútu. Meðal þess sem verjandi Sævars, Ómar Örn, spurði lögreglumenn út í var þáttur Sævars í rannsókninni eftir að hann var handtekinn.

Meðal þess sem Ómar spurði var hvort Sævar hefði veitt lögreglu gagnlegar upplýsingar. „Já, við teljum að hann hafi verið mjög hreinskilinn við okkur og gögnin styðji hans framburð,“ sagði lögreglumaðurinn og þegar Ómar spurði hvort hann hefði verið nokkru sinni verið staðinn að lygum, eða að rannsóknargögn sýndu fram á að hann væri ekki að segja satt, svaraði sami lögreglumaður: „Ég man ekki til þess að við  höfum talið að Sævar væri að segja ósatt.“

Þetta er gott að hafa í huga því Sævar er ákærður fyrir að skipuleggja og flytja inn umrædd fíkniefni. Sævar sagði hins vegar hjá lögreglu að hann hefði aðeins talið sig vera að flytja inn stera.

Þegar þarna var komið  sögu sást einnig að Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari í málinu, var ekki sátt við svör lögreglumannsins. „Þú lýsir því að hann hafi verið samvinnuþýður og trúverðugur, en hann játar bara að hafa flutt inn stera,“ sagði Hulda og veiddi upp úr lögreglumanninum að hann hefði talið Sævar trúverðugan í framburði sínum um annað en fíkniefnin.

En þó svo að Hulda Elsa hafi dregið þetta upp úr lögreglumanninum greip Guðjón St. Marteinsson, dómari málsins, á lofti lýsingu lögreglumannsins. Hann spurði því næstu lögreglumenn sjálfur að því sama, hvort eitthvað benti til þess í málinu og gögnum málsins að Sævar hefði vitað að um fíkniefni væri að ræða. Svar lögreglumannanna var ávallt á þá leið að gögn málsins bæru það ekki með sér, en það væri frekar tilfinning þeirra, að hann hefði vitað af fíkniefnunum í gámnum.

Skuldaði Sævari 2,5 milljónir vegna amfetamíns

Þá er komið að þætti Geirs Hlöðvers. Hann hefur frá upphafi neitað aðild að innflutningnum. Hann játar hins vegar sök í ákæruliðnum sem varðar vörslur á 660 grömmum amfetamíns. Þannig að sé ákæruliðurinn er Geir Hlöðver ákærður fyrir að hafa 30. júní 2011 umrædd fíkniefni á heimili sínu, en lögregla gerði þá húsleit.

Allt í góðu með það. Það óvænta í málinu var hins vegar að Geir Hlöðver hélt því fram fyrir dómi í dag að Sævar hefði selt sér amfetamínið og ætlað að fá fyrir það 2,5 milljónir króna. Sævar er ekki ákærður í umræddum ákærulið.

Með því að halda þessu fram sagði Geir Hlöðver þessa skuld, upp á 2,5 milljónir króna, skýra öll samskipti sín við Sævar. Til að skýra þetta betur verður að taka fram að við umrædda húsleit 30. júni fannst sími á heimili Geirs sem lögregla vissi ekki um og var þar af leiðandi ekki hleraður. Honum var snarlega bætt á listann og skilinn eftir á sínum stað.

Þegar og þá birtist í rannsókninni nefndur Sævar Sverrisson. Kom í ljós að um þennan síma höfðu aðeins samskipti tveir menn; Geir Hlöðver og Sævar Sverrisson. Af símaskýrslum að ráða ræddu þeir líka mikið saman, jafnvel oft á dag. Nær alltaf voru símtölin um peninga. 

Geir Hlöðver skýrði öll símtöl með þeim hætti að Sævar væri að reyna rukka ofangreinda skuld, stundum hefði hann látið Sævar fá pening en stundum kókaín upp í skuldina.

Sjálfur skýrði Sævar þetta með talsvert öðrum hætti. Hann sagði vissulega rétt að hann væri að rukka, en hann væri að rukka fyrir fyrra skipti sem hann flutti inn fyrir Geir „pakka“ frá Hollandi. Einnig að hann yrði að fá pening frá honum til þess að geta farið í aðra ferð.

Beðinn að skýra fyrri ferðina sagði Sævar að það hefðu einnig verið sterar. Hann kíkti þó ekki heldur í þann pakka, þannig að það er alls óvíst hvað Sævar flutti inn í því sem hann kallaði, og hafði eftir Geir, prufusendingu.

Fær sér ekki meira kókaín en venjulegt er

Hvað varðar amfetamínið sem Sævar átti að hafa selt Geir Hlöðveri þá neitaði Sævar því staðfastlega. „Hvar ætti ég svo sem að geta útvegað það?“ spurði hann og virkaði fremur hneykslaður á framburði Geirs. Hann sagði þetta helbera lygi hjá Geir og að hann hefði ekki komið nálægt umræddu amfetamíni.

Verjandi Sævars spurði lögreglumenn einnig út í þennan þátt og framburð Geirs. Sögðu þeir ekkert í gögnum málsins benda til þess að Sævar hefði komið með einhverjum hætti að umræddu amfetamíni eða selt það Geir. Einnig beindi Ómar Örn einni spurningu til Geirs sem varðaði framburð hans hjá lögreglu. „Þá varst þú beðinn um að tjá þig um framburð Sævars, og segir að þetta sé bull og vitleysa, en einnig að þú hlakkir til að mæta í héraðsdóm því þú hafir hjarta, spaða og jafnvel ás.“ Geir sagði að hann hefði líklega verið reiður í yfirheyrslunni.

„Ertu fíkill?“ Svo spurði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Geirs, Sævar sem svaraði á þá leið að hann hefði átt það til að fá sér í nefið. „Ekki meira en venjulegt er,“ sagði Sævar svo spurður hversu mikið hann notaði af kókaíni. Hann neitaði hins vegar að líta á sig sem fíkil. 

Því næst spurði Vilhjálmur út í það hversu oft hann hefði fengið starfsmenn hjá hollenska fyrirtækinu,  sem heildverslunin sem hann starfaði hjá, verslaði við, til að bæta við hlutum í gáma til Íslands. Sævar sagði að það hefði kannski gerst þrisvar sinnum. Þá spurði hann út í tengslin við Holland, sem hafa verið töluverð undanfarin fimm ár. 

Meðal þess sem Sævar fékk sent með gámi var hlaupahjól fyrir son sinn, en ekki var greint frá því hvað  var í hinum sendingunum. Vilhjálmur virtist þó ekki sætta sig alveg við þær skýringar að um hlaupahjól hefði verið að ræða því hann talaði ávallt um meint hlaupahjól.

Auk þess að bendla Sævar við amfetamínið neitaði Geir Hlöðver, eins og áður segir, alfarið sök hvað varðaði innflutning á umræddum fíkniefnum. Vilhjálmur sagði ekkert koma fram í símtölum milli þeirra sem sýndi fram á þátt Geirs, og í raun ekkert í málinu sem það gerði, annað en framburður Sævars. 

Óvíst hvað gerist við framhald aðalmeðferðarinnar

Það sem eftir stendur að fyrsta degi aðalmeðferðar í Straumsvíkurmálinu loknum er fyrir það fyrsta munurinn á framburði Geirs Hlöðvers og Sævars. Taki dómari framburð Geirs Hlöðvers trúanlegan að fullu verður Sævar sakfelldur einn fyrir innflutninginn og það á öllum þeim efnum sem í gámnum fundust. Sé það á hinn veginn fær Geir Hlöðver mun þyngri refsingu en Sævar, sem þá aðeins vissi af steralyfjum, og braut þar með aðeins gegn lyfjalögum með innflutningnum.

Ekki er þó hægt að líta framhjá því að enn er mikið eftir af aðalmeðferðinni, óvíst hversu mikið. Á föstudag verða bornar undir sakborninga hljóðupptökur sem ákæruvaldið hefur valið sérstaklega, einnig tekin skýrsla af vitnum. Svo er óljóst með framhaldið og hvaða áhrif það hefur á málið, að sakborningar og verjendur þeirra hafi aðgang að upptökunum hjá lögreglu. 

Ómar Örn Bjarnþórsson ver skjólstæðing sinn, Sævar Sverrisson, fyrir ágangi …
Ómar Örn Bjarnþórsson ver skjólstæðing sinn, Sævar Sverrisson, fyrir ágangi fjölmiðla í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Morgunblaðið/Ómar
Geir Hlöðver mætir fyrir dómara í morgun.
Geir Hlöðver mætir fyrir dómara í morgun. Morgunblaðið/Andri Karl
Frá aðalmeðferðinni í morgun.
Frá aðalmeðferðinni í morgun. Morgunblaðið/Ómar
Sakborningur kemur til þingfestingar málsins.
Sakborningur kemur til þingfestingar málsins. Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert