Líklega oft smyglað í gámum

Fíkniefni, sem fundust í flutningaskipi í Straumsvíkurhöfn nýlega.
Fíkniefni, sem fundust í flutningaskipi í Straumsvíkurhöfn nýlega. mbl.is/Júlíus

Lögregla telur líklegt að fíkniefnum hafi áður verið smyglað með sama hætti í gámaskipi frá Rotterdam til Straumsvíkurhafnar, líkt og gert var í stærsta fíkniefnamáli ársins sem upp komst í október.  „Hversu mikið magn það hefur verið liggur ekki fyrir, hugsanlega hefur þá verið um að ræða prufusendingar,“ sagði Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á blaðamannafundi lögreglu í dag.

Kári Gunnlaugsson yfirtollvörður segir líklegt að talsvert sé um smygl í gegnum hafnir landsins. „Þetta eru mjög erfið mál í rannsókn. Okkur grunar að þessi gámaflutningur  sé notaður, það er ein af smyglleiðunum og kannski sú stærsta, við vitum það ekki.“

Tollayfirvöld búa meðal annars yfir tæki til að gegnumlýsa gáma. Kári segir að það sé mikilvægt hjálpartæki í baráttunni við smygl og unnt sé að gegnumlýsa marga gáma á dag. „En í venjulegum gámaskipum geta verið allt upp undir 500 gámar og þetta eru stundum 4-5 skip á viku svo það geta komið 2.000 gámar vikulega til landsins.“  Tollverðir hafi ekki tök á því að gegnumlýsa þá alla.

Karl Steinar sagði að rannsókninni miðaði ágætlega en hún hefði þó gengið aðeins hægar en venjulega vegna þess að einn sakborninga var erlendis og kom ekki til landsins fyrr en nokkrum vikum eftir að samverkamaður hans var handtekinn. Fleiri hafa ekki verið yfirheyrðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert